Fara í efni

Rannsókn á örverum í svínahakki

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafa látið rannsaka svínahakk á markaði. Tilgangur rannsóknarinnar var að sannprófa hvort að örverufræðileg viðmið væru uppfyllt hvað varðar salmonellu í svínahakki. Samhliða voru sýni rannsökuð m.t.t. E.coli og líftölu. Örverufræðileg viðmið eru  hollustuhátta- og matvælaöryggisviðmið sem sett hafa verið í reglugerð nr. 135/2010. Sýni voru tekin hjá þeim fyrirtækjum sem framleiða og pakka svínahakki til dreifingar í verslunum (bæði smásalar og kjötvinnslur) og hjá þeim sem selja svínahakk beint úr kjötborði.  Í verkefninu voru einnig skoðaðar dagsetningar, auðkennismerki á umbúðum, uppruni hráefnis, hitastig í kæli og hvort sýnatökuáætlun fyrir svínahakk væri til staðar í fyrirtækinu.

Sýnataka fór fram á tímabilinu ágúst 2013 til og með desember 2013 og voru tekin 39 sýni til rannsóknar úr 12 framleiðslulotum.

Allar niðurstöður greininga á salmonellu voru neikvæðar. Sýni úr fimm framleiðslulotum af tólf uppfylltu ekki gæðakröfur samkvæmt reglugerð um örverufræðileg viðmið, en þar af uppfylltu sýni úr fjórum framleiðslulotum ekki gæðakröfur vegna líftölu (heildargerlafjölda) við 30°C og það sama átti við um sýni úr einni lotu vegna fjölda E.coli gerla.

Eftirlitsaðilar hafa kynnt hluteigandi fyrirtækjum niðurstöður rannsóknanna, en þeim ber að skoða hollustuhætti í framleiðslunni ef fjöldi E.coli gerla og líftala fara yfir viðmiðunarmörk. Hollustuhættir í fyrirtækjunum verða svo metnir í reglubundnum heimsóknum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?