Fara í efni

Nýr taugasjúkdómur greinist í hrossum hér á landi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Áunninn fjöltaugakvilli í hrossum (acquired equine polyneuropathy, AEP) sem þekktur er í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, hefur nú greinst í fyrsta sinn hér á landi. Sjúkdómurinn uppgötvaðist í Skandinavíu fyrir nær 25 árum en þrátt fyrir víðtækar rannsóknir er orsökin ekki þekkt.

Ekki er um smitsjúkdóm að ræða og ekkert bendir til að hann sé arfgengur. Sjúkdómurinn tengist líklega rúlluheyi, því hrossin sem veikjast hafa alla jafna verið fóðruð á rúlluheyi af sama slætti á sama túni. Þó veikjast ekki öll hrossin sem fengið hafa sama hey og því kemur líklega fleira til. Sjúkdómurinn kemur yfirleitt upp seinni hluta vetrar og fram í maí en fá tilfelli eru skráð utan þess tíma. Reynslan frá nágrannalöndunum sýnir að oftast eru mörg tilfelli á hverjum bæ og tilfellin svæðisbundin. Yfirleitt er um ung hross að ræða en þó ekki folöld.

Fjöltaugakvilli vísar til sjúkdóms í mörgum taugum líkamans, einkum í úttaugum sem leiða niður í fætur hestsins. Helsta einkennið er vöðvaslappleiki í afturhluta líkamans sem leiðir til þess að hestarnir missa öðru hverju undan sér afturfæturna, niður á afturfótakjúkurnar. Hestarnir eru með fullri meðvitund, hafa góða matarlist og sýna eðlilegt atferli að mestu leyti. Í alvarlegum tilfellum leggjast hrossin fyrir og nauðsynlegt getur verið að aflífa þau.

Meirihluti þeirra hrossa sem fá einkenni sjúkdómsins læknast af sjálfu sér með hvíld og nýju fóðri en samkvæmt tölum frá Noregi og Svíþjóð þarf að aflífa hross í allt að 30% tilfella.

Fyrstu staðfestu tilfellin hér á landi greindust í útigangshrossum á stóru hrossabúi á Norðurlandi vestra. Greinileg einkenni hafa komið fram í 22 hrossum á aldrinum 2-7 vetra. Þar af hafa 7 verið felld og eitt fundist dautt. Mögulega eru fleiri trippi á bænum með væg einkenni. 

Ekki hefur frést af því að sjúkdómurinn hafi komið upp á fleiri stöðum og ætla má að hættan sé að mestu gengin yfir á þessu ári þar sem flest unghross eru nú komin á beit. Til framtíðar litið er þó hætta á að sjúkdómurinn komi upp víðar, enda hafa þær aðstæður sem valda honum augljóslega skapast hér á landi.

Þar sem um nýjan sjúkdóm er að ræða, sem mikilvægt er að fá yfirlit yfir, óskar Matvælastofnun eftir upplýsingum um öll tilfelli þar sem grunur leikur á sjúkdómnum eða hann er staðfestur. 

Nánari upplýsingar veitir dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun: sigridur.bjornsdottir hjá mast.is, sími: 8930824.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?