Fara í efni

Ný reglugerð um notkun Skráargatsins til umsagnar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í dag eru lögð fram drög að nýrri reglugerð fyrir Skráargatið til umsagnar. Í tillögunum er skerpt á skilyrðum fyrir salt, mettaðar fitusýrur, sykur og heilkorn í skráargatsmerktum vörum. Í drögunum eru tillögur að nýjum matvælaflokkum en jafnframt er lagt til að fella einn flokk úr gildi.

Skráargatið er samnorrænt, opinbert merki sem finna má á umbúðum matvara sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi samsetningu næringarefna. Markmiðið með Skráargatinu er að auðvelda neytendum að velja hollari matvöru á einfaldan og fljótlegan hátt. Vörur sem bera merkið eru hollari en aðrar vörur í sama flokki sem ekki uppfylla skilyrðin til að bera merkið.

Skráargatið var tekið upp hér á landi 12. nóvember síðastliðinn sem liður í því að stuðla að bættu mataræði og þar með bættri heilsu. Skráargatið hefur verið í notkun í Svíþjóð í tæplega 25 ár og í Noregi og Danmörku í tæplega fimm ár.

Skráargatsreglugerðin er lifandi reglugerð sem er endurskoðuð þegar þekking á næringu og/eða breytingar á matvælamarkaði gefa tilefni til. Norrænn starfshópur hefur síðustu tvö ár unnið að endurskoðun reglugerðarinnar og liggja nýju norrænu næringarráðleggingarnar (NNR 2012) til grundvallar fyrirhuguðum breytingum á reglugerðinni. Einnig er tekið tillit til þróunar á matvælamarkaði sem og á breytingum í neyslu- og innkaupavenjum neytenda.

Í þessari nýjustu endurskoðun reglugerðarinnar hefur verið lögð sérstök áhersla á skerðingu saltinnihalds og sett skilyrði fyrir mettaðar fitusýrur. Skilyrði um salt í fisk- og kjötvörum verða innleidd í fyrsta skipti. Ýmsar breytingar á matvælaflokkunum eru einnig fyrirhugaðar. Nokkrum nýjum flokkum hefur verið bætt inn í reglugerðina eins og hrísgrjón, rúgbrauð og hnetur svo dæmi séu tekin en einnig er tillaga um að fella einn flokk úr gildi.

Þá var lögð áhersla á að stuðla að breytingum á reglugerðinni sem á að örva vöruþróun í matvælaiðnaði. Skráargatsreglugerðin á að innihalda viðmið sem eru þess virði að framleiðendur og verslun sækist eftir þeim. Tekið hefur verið tillit til athugasemda frá matvælaframleiðendum þannig að matvælaflokkarnir og skilyrði þeirra eru skýrari í nýju reglugerðinni. Eins hefur verið opnað frekar á notkun Skráargatsins á óforpakkaðar vörur sem eykur möguleika verslana í markaðssetningu Skráargatsins.

Drög að nýrri reglugerð fyrir Skráargatið eru nú lögð fram til umsagnar og gefst almenningi, matvælafyrirtækjum, dreifingaraðilum og öðrum hagsmunaaðilum kostur á að koma athugasemdum á framfæri. Greinargerð um tillögur að nýrri reglugerð um notkun Skráargatsins við markaðssetningu matvæla fylgir drögunum, en hún útskýrir aðdraganda endurskoðunarinnar og þann næringarfræðilega bakgrunn sem liggur til grundvallar breytingunum á núverandi reglugerð um Skráargatið. 

Frestur til að skila athugasemdum er til 24. mars 2014. Farið verður yfir allar athugasemdir sem berast og getur niðurstaðan úr umsagnarferlinu leitt til breytinga á þeim tillögum sem nú eru lagðar fram.

Þess er óskað að umsagnir og athugasemdir er varða þetta mál verði sendar á rafrænu formi á netfangið mast@mast.is undir yfirskriftinni „Umsögn um tillögu að nýrri reglugerð um notkun Skráargatsins“.

            Matvælastofnun                                            Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?