Fara í efni

Hvað ber helst að varast þegar illa vorar á búfé

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 

Við þær sérstöku aðstæður sem hafa skapast undanfarna daga vegna snjókomu á N-Austurlandi og öskufalls í Skaftafellssýslum hafa margir sauðfjárbændur þurft að halda fé inni óvenju lengi eða taka á hús. Rétt er að huga að ýmsum vandamálum sem af þessu geta hlotist.


  
Hníslasótt
 

Lömb sem eru í þröngum hólfum eða þröngum stíum inni geta smitast af hníslasótt. Henni veldur einfrumungurinn Eimeria, sem skilst út með saur og smitar lömbin þannig. Einkennin koma fram í 4-6 vikna lömbum. Þau verða dauf, lystarlaus, þrífast ekki, fá skitu og tapa við það miklum vökva. Skitan er daunill og dökkleit vegna blæðinga í görnunum. Lömbin eru kvalin og kveina gjarnan þega skitan rennur frá þeim.


Engin fyrirbyggjandi lyf eru skráð fyrir sauðfé. Súlfalyf verka ágætlega á sjúkdóminn en þau eru ekki skráð fyrir sauðfé. Dýralæknar geta útvegað töflur sem má gefa með vissum skilyrðum.

Ormasmit

Eins og með hníslasóttina magnast ormasmit við þrengsli og á þröngu landi. Það er því mikilvægt að gefa ormalyf áður en fé fer í sumarhaga.

Selen- E-vítamínskortur, stíuskjögur

Það er þekkt að lömb sem eru höfð lengi inni geta fengið stíuskjögur, sem er E-vítamín- og selenskortur. Lömbin verða stirð í gangi og leggjast jafnvel flöt. Getur komið fram í þriflegum lömbum þegar þau koma út. Mælt er með að lömb séu sprautuð með selen og E-vítamíni áður en þeim er sleppt út. Það getur líka verið ástæða til þess að sprauta ærnar og gemlinga. Á öskufallsvæðum 2010 og 2011 getur verið rétt að sprauta hryssur, tryppi og folöld með selen- og E-vítamíni.  Geldneytin gæti líka þurft að sprauta, ef ekki hafa verið settir í þau stautar. Hafið samráð við dýralækna um hvernig best væri að standa að þessu. Einnig skal bent á að nú fást sérstakir steinefnastampar sem innihalda mikið Selen-Evítamín en lítið járn, þessir stampar eru gerðir sérstaklega fyrir gossvæðin.

Athugið að sauðfé þolir mjög illa ofskömmtun kopars, veljið því alltaf koparsnauð steinefni fyrir sauðféð.

Garnapest, flosnýrnaveiki

Ef bólusetning með bóluefni gegn pestarsýklum (Clostridium) hefur verið vanrækt geta slíkar sýkingar blossað upp við snöggar fóðurbreytingar þegar kindurnar koma út. Falleg lömb bráðveikjast og drepast á stuttum tíma úr flosnýrnaveiki. Skrokkurinn bólgnar fljótt upp, blánar og verður illa lyktandi.  Leitið ráða hjá dýralækni.

Júgurbólga

Huga þarf vel að því hvort ærnar hafa fengið júgurbólgu vegna innistöðunnar. Lömbin ganga hart að ánum í þrengslunum, stela og særa spena. Alltaf verða einhver óhreinindi þegar féð er mjög margt saman og smitálagið verður smám saman mikið.

Hreinsun á augum á öskusvæðum

Þar sem öskufall hefur verið mest getur þurft að hreinsa augu kinda og hrossa. Best er að nota úðabrúsa og hreint vatn til að þvo augun. Askan er líka undir augnlokum svo það þarf að reyna að hreinsa þar líka.

Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Ólafsson, sérgreinadýralæknir nautgripa- og sauðfjársjúkdóma hjá MAST.


Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?