Fara í efni

Eftirlitsverkefni 2012

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Samstarfsverkefni Matvælastofnunar (MAST) og Heilbrigðiseftirlits sveitafélaganna (HES) á sviði matvælaeftirlits.

Á hverju ári vinna Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitafélaganna saman að afmörkuðum eftirlitsverkefnum. Með hverju verkefni er sjónum beint að skýrt afmörkuðu málefni sem snýr að matvælum og eru verkefnin liður í samræmingu matvælaeftirlits í landinu. Fyrir kemur þó að ekki henti öllum heilbrigðiseftirlitssvæðum að vera með í einstöku verkefnum vegna samsetningar eða smæðar þeirra fyrirtækja sem eru á svæðinu.

Á árinu 2012 var sjónum beint að sjálfsafgreiðslubörum og rekjanleikamatvæla.

Sjálfsafgreiðslubarir

Verslanir með sjálfsafgreiðslubari þurfa að uppylla viðeigandi kröfur um góða starfshætti sem settar eru fram í reglugerð nr. 103/2010 (EB/852/2004) um hollustuhætti. Þær eiga að vera með innra eftirlit sem lýsir því hvernig góðir starfshættir eru tryggðir. Það fer eftir eðli og umfangi starfsemi matvælafyrirtækisins hvaða kröfur eru gerðar til innra eftirlits fyrirtækjanna. Verslanir með sjálfafgreiðslu flokkast í flokk 2 skv. bækling MAST um innra eftirlit. Það þýðir að þau eiga að setja upp innra eftirlit sem tekur á góðum starfsháttum og skal því lýst skriflega. Sem dæmi um góða starfshætti sem eiga við sjálfsafgreiðslubari eru þrifaáætlanir, örugg meðhöndlun matvæla og hitastigseftirlit þar sem það á við.

Heilbrigðiseftirlitið skoðaði 161 sjálfafgreiðslubari og voru sælgætisbarir í meirihluta eða 57%. Barir með brauð og bakkelsi voru 26%, salatbarir 11% og restin var óalgengari tegundir, eins og ísbar og hnetubar.

Í ljós kom að víða var pottur brotinn hvað varðaði skriflegt verklag og skráningar. Hins vegar voru yfirleitt í gildi ákveðnar verklagsreglur sem starfsfólk þekkti. Þá gat seljandi ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um innihald vörunnar í 55% tilfella, sem er nokkuð alvarlegt.

Rekjanleiki og innköllun

Skilgreiningin á rekjanleika eins og hún birtist í lögum um matvæli nr. 93/1995:
Rekjanleiki er sá möguleiki að rekja uppruna og feril matvæla, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og efna sem nota á eða vænst er að verði notuð í eða í snertingu við matvæli í gegnum öll stig framleiðslu, vinnslu og dreifingar.“ .

Gott rekjanleikakerfi fyrirtækja er skilyrði þess að hægt sé á markvissan og skilvirkan hátt að stöðva dreifingu og / eða innkalla vörur af markað á. Þannig má lágmarka hugsanlegt heilsutjón neytenda og fjárhagstjón fyrirtækja.

Rekjanleiki matvæla, hráefna og aukefna var kannaður hjá 41 matvælafyrirtæki.

Niðurstöður sýndu að flestir gátu rakið feril vörunnar eitt skref aftur og eitt skref fram, jafnvel þótt svo ekki væri til staðar skriflegt verklag. Könnun þessi náði aðeins til takmarkaðs fjölda fyrirtækja svo ekki rétt að draga miklar ályktanir af niðurstöðunum en þær geta þó gefið vísbendingu um ástandið.

Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?