Fara í efni

Dómar um sýknu vegna endurgreiðslu eftirlitsgjalda standa óraskaðir

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Landsréttur hefur staðfest tvo dóma Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem Matvælastofnun var sýknað af kröfum um endurgreiðslur á gjaldtöku stofnunarinnar vegna heilbrigðisskoðunar og kjötmats í sláturhúsi.

Innheimta gjalda vegna heilbrigðisskoðunar í sláturhúsum

Gerð var krafa um endurgreiðslu að fjárhæð tæplega 109 milljóna króna auk vaxta og dráttarvaxta vegna eftirlitsgjalds sem lagt var á sláturleyfishafa árin 2014 til 2018 skv. þágildandi lögum nr. 96/1997 og gjaldskrá Matvælastofnunar. Álagning eftirlitsgjaldsins var byggð á kostnaði stofnunarinnar við daglegt lögbundið heilbrigðiseftirlit dýralækna.

Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sýknu með vísan til forsenda hans. Í dómnum segir að stofnunin hafi lagt fram ýmis gögn um raunkostnað vegna eftirlitsins hjá framleiðandanum og gögnin bendi ekki til að framleiðandinn hafi verið krafinn um hærri fjárhæðir en numið hafi raunverulegum kostnaði stofnunarinnar við eftirlitið.

Innheimta gjalda vegna kjötmats

Gerð var krafa um endurgreiðslu að fjárhæð rúmra 9 milljón króna auk vaxta og dráttarvaxta vegna álagningar við yfirmat hjá sláturleyfishafa á árunum 2014 til 2018. Í málinu var deilt um eðli gjaldtökunnar skv. 16. gr. þágildandi laga nr. 96/1997. Álagning gjaldsins var byggð á því að sérstaklega væri tilgreint í lagaákvæðinu hverjir væru gjaldskyldir, þ.e. sláturleyfishafar, við hvað gjaldið miðist, þ.e. innvegið magn kjöts í sláturhúsi og hver fjárhæð gjaldsins sé. Matvælastofnun væri þannig ekki falin ákvörðun um meginatriði innheimtunnar.

Landsréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms um sýknu með vísan til forsenda sem þar komu fram um að næg rök væru fyrir því að um gilda lagaheimild til skattlagningar, sbr. 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, væri að ræða. Gjaldtakan væri skv. fastákveðnu viðmiði án þess að ráðherra eða stjórnvöldum væri falið mat eða framselt vald til að ákveða fjárhæð gjaldsins, nánari viðmið fyrir álagningu þess eða endurgreiðslur. Af þeim sökum haggi það ekki greiðsluskyldu að yfirmat fór mismikið eða alls ekki fram eftir því hvaða tegund sláturdýra er að ræða.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?