Fara í efni

Dómar vegna vörslusviptingar sauðfjár og innheimtu gjalda við slátrun

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fallið hafa dómar í þremur héraðsdómum er varða störf Matvælastofnunar, annars vegar dómur um skaðabótaskyldu stofnunarinnar vegna vörslusviptingar sem fór fram á sauðfé og hins vegar tveir dómar í málum sem sláturleyfishafi höfðaði vegna innheimtu gjalda við kjötmat og heilbrigðisskoðun með slátrun.

Vörslusvipting sauðfjár

Gerð var krafa um skaðabætur að fjárhæð 12,5 milljóna króna auk dráttarvaxta vegna vörslusviptingar á sauðfé sem Matvælastofnun framkvæmdi haustið 2014. Stofnunin hafði um nokkurt skeið eða allt frá vori 2013 viðhaft sérstakt eftirlit vegna ófullnægjandi aðbúnaðar. Þannig voru hús opin og ófrágengin, gólf blaut og skítug, brynning ófullnægjandi og lýsingu áfátt. Þá voru sumir gripir vanfóðraðir. Þegar ljóst var að úrbætur höfðu ekki verið gerðar vorið 2014 gaf stofnunin umráðamanni viðbótarfrest til haustsins 2014 til að ljúka úrbótum. Þegar úrbætur höfðu ekki verið gerðar um haustið tók stofnunin féð í sínar vörslur og flutti í kjölfarið í sláturhús. Taldi stofnunin að fóðrun, brynning og aðbúnaður fjárins væru ófullnægjandi og ekki hefði verið hægt að una við slíkt áfram. Umráðamenn fjárins töldu að stofnunin hefði farið offari og kröfðust skaðabóta.

Héraðsdómur féllst ekki á skaðabótakröfu vegna fjárhagstjóns, taldi dómari matsgerð sem var lögð fram við rekstur málsins ekki skapa grundvöll að bótakröfum vegna fjárhagstjóns og að veigamiklar vísbendingar væru um að framlegð af búskapnum hefði í raun verið neikvæð í efnahagslegu tilliti. Hins vegar var íslenska ríkinu gert að greiða tveimur umráðamönnum fjárins 1,5 milljón króna hvorum í miskabætur. Taldi dómurinn að þótt fullt tilefni hefði verið til að fylgjast grannt með búfjárhaldinu og fylgja eftir athugasemdum og að frestir hefðu verið eðlilegir, þá séu heimildir stofnunarinnar til að láta aflífa dýr, sem stofnunin hafi umráð yfir vegna vörslusviptingar, háðar því að hvorki stofnuninni né eiganda takist að finna viðeigandi aðstæður eða aðbúnað fyrir dýrin. Stofnunin hafi að mati dómsins verið búin að taka ákvörðun um slátrun áður en vörslusvipting gripanna fór fram. Þannig hafi tímasetning vörslusviptingar verið miðuð við það að stofnunin hefði vörslur fjárins í lágmarkstíma áður en því væri ráðstafað til slátrunar í tæka tíð áður en sauðfjárslátrun lyki það haustið. Aðgerðin hafi því ekki verið í samræmi við ákvæði um vörslusviptingu og meðalhóf. Þá hafi skammt verið eftir af framkvæmdatíma við fjárhús þannig að knýja hefði mátt fram verklok eða að minnsta kosti gefa umráðamönnunum frekari frest  á eigin ábyrgð og kostnað til að ljúka byggingunni þó vörslusvipting hefði farið fram. Það hefði verið í betra samræmi við skyldur stofnunarinnar til meðalhófs. Málskostnaður milli aðila var felldur niður.

Innheimta gjalda vegna heilbrigðisskoðunar í sláturhúsum

Gerð var krafa um endurgreiðslu að fjárhæð tæplega 109 milljóna króna auk vaxta og dráttarvaxta vegna eftirlitsgjalds sem lagt var á sláturleyfishafa árin 2014 til 2018 skv. þágildandi lögum nr. 96/1997 og gjaldskrá Matvælastofnunar. Álagning eftirlitsgjaldsins var byggð á kostnaði stofnunarinnar við daglegt lögbundið heilbrigðiseftirlit dýralækna.

Héraðsdómur sýknaði íslenska ríkið og taldi að túlkun sláturleyfishafans á hugtakinu „raunkostnaður“ væri of þröng og líta megi til kostnaðar sem almennt hljótist af því að veita umrædda þjónustu og innheimta þjónustugjald samkvæmt því. Ekki var talið að setning gjaldsins í gjaldskrá stofnunarinnar hafi verið óforsvaranleg m.t.t. áskilnaðar laganna. Þá hafi legið fyrir ítarleg gögn um útreikninga raunkostnaðar hjá sláturleyfishafanum og hann hafi ekki getað hrakið þá útreikninga, né heldur að þeir kostnaðarliðir sem lágu fyrir ættu ekki við. Taldi dómurinn að gjaldið væri í öllu falli ekki hærra en útreikningar stofnunarinnar. Málskostnaður milli aðila var felldur niður.

Innheimta gjalda vegna kjötmats

Gerð var krafa um endurgreiðslu að fjárhæð rúmra 9 milljón króna auk vaxta og dráttarvaxta vegna álagningar við yfirmat hjá sláturleyfishafa á árunum 2014 til 2018. Í málinu var deilt um eðli gjaldtökunnar skv. 16. gr. þágildandi laga nr. 96/1997. Álagning gjaldsins var byggð á því að sérstaklega væri tilgreint í lagaákvæðinu hverjir væru gjaldskyldir, þ.e. sláturleyfishafar, við hvað gjaldið miðist, þ.e. innvegið magn kjöts í sláturhúsi og hver fjárhæð gjaldsins sé. Matvælastofnun væri þannig ekki falin ákvörðun um meginatriði innheimtunnar.

Niðurstaða héraðsdóms var að næg rök væru fyrir því að um gilda lagaheimild til skattlagningar, sbr. 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, væri að ræða og sýknaði íslenska ríkið af kröfu sláturleyfishafans. Málskostnaður milli aðila var felldur niður.

Ekki liggur fyrir hvort þessum málum verði áfrýjað en stofnunin mun fara yfir forsendur fyrst nefnda málsins með Ríkislögmanni og meta framhald þess máls.


Getum við bætt efni síðunnar?