Fara í efni

Caliciveira í köttum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Undanfarið hefur nokkuð borið á umræðu um smit af sk. kattacaliciveiru í hreinræktuðum köttum. Matvælastofnun vill því af því tilefni koma á framfæri upplýsingum um þennan veirusjúkdóm, sem stundum kallast á íslensku kattakvef.

Kattacaliciveiran (Feline Calici Virus, FCV) hefur verið þekkt í tugi ára, m.a. á Íslandi. Bólusett hefur verið hér á landi frá 1986 gegn bæði herpes- og caliciveirunni sem báðar geta valdið kvefi og flensueinkennum hjá köttum.  Ekki hefur verið gerð rannsókn á útbreiðslu kattacaliciveirunnar hér á landi, svo tíðni og útbreiðsla er óþekkt.

Caliciveiran veldur oftast mildum einkennum í efri öndunarvegi í óbólusettum köttum, svo sem sárum í munnholi og rennsli frá nefi og augum. Flestir kettir losna við veiruna á um það bil mánuði. Einstaka kettir fá þó alvarlegri einkenni og losna ekki við veiruna. Þeir geta borið smit í aðra ketti í mörg ár og verða svokallaðir krónískir smitberar. Kattaherpesveiran veldur mjög svipuðum einkennum í efri öndunarvegi en augneinkenni eru meira áberandi. Oft eru þessi sjúkdómseinkenni kölluð kattaflensa. Einnig getur smit með veiru sem skerðir mótefnasvörun kattanna (e. Feline Immunodeficiency Virus - FIV) spilað inn í. Til þess að greina hvaða veirur kötturinn gæti hafa fengið þarf að senda sýni í rannsókn.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að bólusetning hindrar ekki að kötturinn geti smitast af caliciveirunni og borið smit áfram, heldur dregur hún úr sjúkdómseinkennum. Þó eru dæmi um að aðrir veirustofnar af caliciveirunni skjóti upp kollinum og þá geta komið fram sjúkdómseinkenni þrátt fyrir bólusetningu. 

Caliciveirusýking virðist vera einn af orsakavöldum í heilkenni sem einkennist af alvarlegri langvinnri munnhols- og tannholdsbólgu. Rannsóknir hafa sýnt að tíðni af calici smiti er hærri í slíkum köttum en í samanburðarhópum. En það er ljóst að aðrir þættir gegna þar einnig hlutverki svo sem einstaklingseiginleikar og önnur smitefni þar sem ekki hefur tekist að valda langvinnum munnhols- og tannholdsbólgum í smittilraunum með caliciveirum.

Caliciveirusmit er afar sjaldan vandamál í hefðbundnu kattahaldi þar sem eru fáir kettir. Þar sem þéttleiki katta er meiri, svo sem í kattaathvörfum eða í stærri kattaræktunum, getur caliciveiran orðið vandamál. Kattaeigendur þurfa að vera vel vakandi fyrir almennri heilsu og mögulegum sjúkdómseinkennum í köttum sínum, fylgjast með matarlyst og skoða reglulega munn og tannhold. Ef upp kemur smit er mikilvægt að gera viðeigandi ráðstafanir með aðstoð dýralæknis og gera áætlun varðandi sýnatökur, þrif, einangrun og umgengni. Mikilvægast er að vernda ungviði gegn smiti. Sjá einnig almennar ráðleggingar á vef Matvælastofnunar.

Samkvæmt lögum um velferð dýra skal einungis rækta heilsuhraust dýr og þeim sem afhenda dýr er skylt að upplýsa um heilsufar.


Getum við bætt efni síðunnar?