Fara í efni

Ákvörðun um höfnun endurnýjaðs rekstrarleyfis fyrir sjókvíaeldi á regnbogasilungi og bleikju í Önundarfirði felld úr gildi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 10. nóvember 2021 felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þann úrskurð að fella skyldi niður ákvörðun Matvælastofnunar um að hafna endurnýjun á rekstrarleyfi Arctic Sea Farm hf.

Ákvörðun Matvælastofnunar byggði á 14. gr. reglugerðar um fiskeldi nr. 540/2020. Samkvæmt ákvæðinu skal rekstrarleyfishafi sækja um endurnýjun rekstrarleyfis til fiskeldis 7 mánuðum áður en gildandi rekstrarleyfi rennur út. Þar sem umsókn um endurnýjun barst ekki innan þessara tímarmarka tók stofnunin umsókn rekstraraðila ekki til efnislegrar meðferðar.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar segir að samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008 skuli leggja mat á hvort umsækjandi um endurnýjun rekstrarleyfis uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til rekstursins skv. 2. mgr. sama ákvæðis. Segir svo áfram í úrskurðinum:

Telja verður ljóst að tilgangur 14. gr. reglugerðarinnar sé m.a. sá að gefa stofnuninni svigrúm til að framkvæma fyrrgreint mat áður en gildistími rekstrarleyfis renni út. Hins vegar verður ekki talið að reglan afnemi með fortakslausum hætti skyldu Matvælastofnunar til að framkvæma matið, enda gengur tímamark nefndrar 14. gr. reglugerðarinnar lengra en 3. mgr. 7. gr. laganna. Í ljósi þess að fyrirsjáanlegt var að túlkun Matvælastofnunar á 14. gr. reglugerðarinnar myndi leiða til íþyngjandi niðurstöðu gagnvart kæranda bar stofnuninni að kanna hvort umsókn hans hefði borist henni nægilega tímanlega til að hún gæti afgreitt umsóknina með lögformlega réttum hætti. Í máli þessu verður ekki ráðið hvort umsókn kæranda, sem barst rúmum sex mánuðum áður en þágildandi rekstraleyfi rann út, hafi borist það seint að afgreiðsla hennar hefði verið vandkvæðum háð af þeim sökum og hefur stofnunin heldur ekki haldið því fram. Viðhafði stofnunin því ekki það skyldubundna mat sem 3. mgr. 7. gr. laganna kveður á um.

Ítarefni:


Getum við bætt efni síðunnar?