Fara í efni

Aðgerðir gegn riðuveiki - ný nálgun með verndandi arfgerðum

Sérfræðingahópur sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði 16. maí sl. hefur skilað skýrslu sem ber heitið Aðgerðir gegn riðuveiki - ný nálgun með verndandi arfgerðum.

Í skýrslunni er að finna greiningu hópsins á núverandi stöðu og tilllögur að útfærslum við ræktun fjár með með verndandi arfgerðir. Einnig lagði hópurinn mat á árangur aðgerða stjórnvalda frá því að skipulagður niðurskurður hófst á níunda áratug síðustu aldar. Jafnframt var lagt mat á væntan árangur ræktunar á verndandi arfgerðum og mögulega verndandi arfgerðum og gildi mögulegra smitvarna til að hefta útbreiðslu riðusmits. Gert var ennfremur mat á smitvarnarráðstöfunum í hjörðum með tilliti til niðurskurðar og mat lagt á önnur fagleg álitamál um riðuveiki og varnir gegn henni.

Hópurinn leggur m.a. til að gefin verði út sameiginleg landsáætlun stjórnvalda, Matvælastofnunar og bænda um riðuveikilaust Ísland, þ.m.t arfgerðagreiningar. Einnig að stutt verði við sæðingar með hrútum sem bera verndandi arfgerðir og komið verði á fót samstarfsbúum á líflambasölusvæðum.

Sérfræðingahópinn skipuðu þau Erla Sturludóttir dósent við LbhÍ, Hákon Hansson dýralæknir, Jón Hjalti Eiríksson lektor við LbhÍ, Ólafur Jónsson héraðsdýralæknir, Stefanía Þorgeirsdóttir líffræðingur hjá Tilraunastöð HÍ að Keldum, Vilhjálmur Svansson, dýralæknir hjá Tilraunastöð HÍ að Keldum og Thor Aspelund, prófessor við HÍ í líftölfræði. Hópurinn vann með Sigurborgu Daðadóttur, yfirdýralækni sem stýrði verkefninu.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?