Fara í efni

Vörslusvipting Matvælastofnunar á öllu sauðfé bónda staðfest af ráðuneyti

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nýlega staðfesti matvælaráðuneyti ákvörðun Matvælastofnunar frá 8. október 2021 um að svipta sauðfjárbónda vörslum alls fjár síns. Bóndinn hafði kært vörslusviptinguna til ráðuneytis.

Frá árinu 2019 hafði stofnunin gert ítrekaðar athugasemdir við aðbúnað sauðfjár á bæ kærandans. Athugasemdir stofnuninarinnar lutu að mörgum þáttum svo sem slysavörnum, brynningu, fóðrun, holdafari, smitgát, gólfi í fjárhúsum, ástandi girðinga og umhverfis við mannvirki. Að lokum var bóndanum gert að gera úrbætur á húsum sínum fyrir 1. júlí 2021 eða framvísa ella samningi við nágranna um annan húsakost fyrir féð. Það gerði hann ekki og var hann því sviptur vörslum fjárins um haustið.

Kærandi taldi að stofnunin hefði brotið reglur um meðalhóf og beitt of íþyngjandi aðgerðum. Ævistarf hans hefði farið í súginn og hann ekki getað nýtt kærurétt sinn áður en vörslusvipting fór fram. Stofnunin hefði einnig getað bætt sjálf úr aðbúnaði skepnanna á kostnað bóndans í stað þess að svipta hann vörslum kindanna.

Ráðuneytið féllst ekki á þessi rök. Hlutverk Matvælastofnunar væri fyrst og fremst að tryggja velferð dýranna og ekki væri að sjá að hægt hefði verið að beita mildari aðgerðum í þessu tilviki.

Vörslusviptingin var því staðfest.


Getum við bætt efni síðunnar?