Vörslusvipting Matvælastofnunar á 137 nautgripum dæmd lögmæt
Málið átti sér langan aðdraganda og hafði stofnunin árum saman sett út á meðferð gripanna, aðbúnað þeirra, byggingar og búnað og ekki síst skort á eigin eftirliti bændanna og stöðugt krafist úrbóta. Hafði stofnunin loks komist að þeirri niðurstöðu að verulega skorti á getu, hæfni og ábyrgð þeirra til að tryggja velferð dýranna. Bændurnir kærðu hina fyrirhuguðu vörslusviptingu til matvælaráðuneytis sem staðfesti hana nokkrum dögum áður áður en hún var framkvæmd.
Eftir framkvæmd vörslusviptingar stefndu bændurnir hins vegar íslenska ríkinu og fóru fram á að viðurkennd yrði skaðabótaskylda þess. Byggðist krafan á fjárhagstjóni þeirra af ákvörðun Matvælastofnunar, framkvæmd hennar og vegna missis hagnaðar sem þeir hefðu notið ef ekki hefði komið til sviptingarinnar. Enn fremur vildu þeir fá bættan miska sem þeir hefðu orðið fyrir vegna ákvörðunarinnar.
Í dóminum sem féll í desember 2023 var öllum kröfum bændanna hafnað. Þar segir að að bændunum hafi ekki tekist að færa sönnur fyrir fullyrðingum sínum um ólögmæta og saknæma háttsemi starfsmanna Matvælastofnunar sem hafi valdið þeim tjóni og bakað þar með íslenska ríkinu skaðabótaskyldu. Hafi bændurnir orðið fyrir slíku tjóni verði að telja orsök þess vera þá að þeir sinntu ekki lögmætum úrbótakröfum sem leiddi til þess að þeir voru sviptir vörslum dýranna. Á slíku tjóni geti ekki aðrir en þeir sjálfir borið ábyrgð. Ákvörðun Matvælastofnunar um vörslusviptingu á 137 nautgripum og framkvæmd hennar hafi verið í fullu samræmi við lög um velferð dýra, stjórnsýslulög og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar.
Íslenska ríkið var því sýknað af kröfum bændanna um viðurkenningu á bótaskyldu.
Ítarefni: Dómur