Vöktun á sýklalyfjaónæmi 2020
Matvælastofnun hefur birt skýrslu um vöktun súna og sýklalyfjaónæmis 2020 á vef stofnunarinnar.
Sýklalyfjaónæmar bakteríur finnast í íslensku búfé og afurðum þeirra. Kerfisbundin vöktun á sýklalyfjaónæmi er nauðsynleg til að fylgjast með þróuninni og svo að hægt sé að grípa til aðgerða.
Skipta má vöktuninni í tvennt:
- Skimun á sýklalyfjaónæmi í búfé og búfjárafurðum
- Prófun á ónæmi í sjúkdómsvaldandi örverum í búfé og búfjárafurðum
Skimun á sýklalyfjaónæmi í búfé og búfjárafurðum
Við skimun á botnlangasýnum frá lömbum og svínum fundust sértækar lyfjaónæmar bakteríur (ESBL/AmpC myndandi E. coli) hjá 4,7% lamba og 14% svína. Þetta er aðeins hærri tíðni en fannst í botnlöngum svína frá árinu áður, en töluverð lækkun í botnlöngum lamba. Þessar sértæku lyfjaónæmar bakteríur fundust í einu botnlangasýni frá kjúklingum (0,7%) á þessu ári. ESBL/AmpC myndandi E. coli bakteríur geta yfirfært ónæmisgen og eiginleika þeirra í aðrar bakteríur, þ.m.t. sjúkdómsvaldandi bakteríur, einkum ef genin eru í plasmíðum bakteríanna. Allir stofnarnir frá lömbum og langflestir frá svínum voru með litningaborin AmpC gen og því eru mun minni líkur á láréttri dreifingu á þessum genum milli baktería. Einn stofn frá svínum var með plasmíðborin ESBL gen og þessi eini sem fannst í kjúklingum var með plasmíðborið AmpC gen. Ekki var prófað fyrir ESBL/AmpC myndandi E. coli í botnlangasýnum nautgripa og hrossa.
Ekki fannst ESBL/AmpC myndandi E. coli í kjúklingakjöti á markaði. Eitt svínakjötssýni (0,6%) var jákvætt fyrir þessum tilteknu bakteríum og var það af innlendum uppruna. Ekki var skimað fyrir ESBL/AmpC myndandi E. coli í afurðum sauðfjár, nautgripa og hrossa. Að auki var skimað fyrir ESBL/AmpC myndandi E. coli í salati á markaði og voru öll sýnin neikvæð.
Næmisprófanir á E. coli bendibakteríum gefa vísbendingu um algengi lyfjaónæmra baktería í viðkomandi dýrategund. Árið 2020 voru 85 E. coli bendibakteríu stofnar frá kjúklingum næmisprófaðir og reyndust 18 þeirra (21,2%) ónæmir fyrir einu eða fleiri sýklalyfjum, þar af þrír fjölónæmir. Þetta er svipuð tíðni og hefur verið síðustu ár og nokkuð lægra en í svínum frá fyrri árum.
Árið 2020 var skimað í þriðja sinn fyrir MÓSA í svínum en þessar fjölónæmu bakteríur eru mjög algengar á svínabúum á meginlandi Evrópu og víðar. Sýni voru tekin úr nefholi grísa frá nánast öllum svínabúum landsins sem senda svín til slátrunar. Ekki fannst MÓSA í neinu þeirra.
Prófun á ónæmi í sjúkdómsvaldandi örverum í búfé og búfjárafurðum
Árið 2020 voru 20 salmonellustofnar úr alifuglum, bæði úr eldi og við slátrun, næmisprófaðir og reyndust tveir þeirra vera fjölónæmir.
Tíðni kampýlóbakter í alifuglum var mjög lág árið 2020 og því voru fáir stofnar ónæmisprófaðir eða einungis sjö. Allir stofnarnir voru fullnæmir.
Aukin vöktun
Vöktun hér á landi er skammt á veg komin og ekki tímabært að draga víðtækar ályktanir um tíðnina í mismunandi búfjártegundum og afurðum þeirra. Gagnaöflun yfir lengri tíma er nauðsynleg til þess að meta tíðni og þróun sýklalyfjaónæmra baktería í dýrum, dýraafurðum og umhverfi.