Fara í efni

Velferð dýra í sláturhúsum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Dýr hafa verið samofin samfélagi okkar og daglegu lífi frá örófi alda, bæði til gagns og gamans. Meðvitund um og áhersla á velferð dýra hefur síðustu ár farið ört vaxandi í vestrænum samfélögum. Ný lög á Íslandi um velferð dýra, í samræmi við nýleg lög í nágrannalöndum okkar, staðfesta að dýr eru skyni gæddar verur sem hafa eigin tilverurétt og rétt á að fá að lifa við aðstæður þar sem þau líða ekki fyrir hungur, þorsta, ótta, vanlíðan, meiðsli og sjúkdóma, og fái að sýna sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.

Breyttir búskapahættir og kröfur neytenda

Fyrr á árum voru býli frekar smá og flestir héldu dýr til að uppfylla eigin þarfir til matar, vinnu og til flutninga. Þróunin hefur hins vegar verið á þá leið að dýrahald skiptist að mestu í tvo flokka, annarsvegar dýrahald til matvæla- eða vöruframleiðslu og hinsvegar dýrahald til skemmtunar og tómstunda, þó vissulega séu haldin dýr til annars gagns ennþá. Kröfur neytenda snúast í auknum mæli um ódýrari vörur og til að ná fram hagkvæmni hafa býlin þurft að stækka og sérhæfast í sinni framleiðslu. Áskorunin sem fylgir því að halda dýr í stórum einingum og hámarka þannig framlegð, er að áfram sé gætt að velferð hópsins og hvers dýrs sem í honum er. Síðustu ár hafa þó neytendur og samfélagið í heild ekki eingöngu látið sig varða kaupverð á vörunni heldur einnig hvernig maturinn sem við neytum verður til, við hvaða aðstæður dýrin lifa, hvernig er farið með þau, hvernig má ætla að þeim líði þangað til þeim er slátrað og ekki síst hvernig þeim er slátrað. Flestum okkar líður betur með að neyta afurða þegar við vitum að dýrin hafa átt gott líf og þeim hafi verið slátrað á mannúðlegan hátt. Gæði matvöru fara einnig oftast saman við ofangreinda þætti.

Reglugerð um vernd dýra við aflífun

Með auknum áherslum á velferð dýra hefur slátrunarferlið einnig verið í mikilli endurskoðun í nágrannalöndum okkar. Í janúar 2013 var  innleidd reglugerð hér á landi sem fjallar um „vernd dýra við aflífun“ og hefur Matvælastofnun eftirlit með að henni sé framfylgt.  Þó reglugerðin fjalli um aflífun dýra á breiðum grundvelli þá eru helstu áherslur á meðferð dýra við slátrun í sláturhúsum. Reglugerðin gerir auknar kröfur til sláturleyfishafa frá því sem verið hefur. Mun meiri kröfur eru t.d. gerðar til innra eftirlits og skráninga. Sláturleyfishöfum ber að útnefna sérstakan dýravelferðarfulltrúa meðal eigin starfsmanna, sem ber sérstaka ábyrgð á öllu er gæti varðað velferð dýra í sláturferlinu. Fylgjast skal með og skrá í hæfilega stóru úrtaki af heildar fjölda sem slátrað er m.a. skilvirkni deyfingar áður en dýr er blóðgað og það kannað hvort tímamörk séu þannig að dýr vakni ekki úr deyfingu í ferlinu. Reglugerðin gerir einnig kröfur um námskeið fyrir lykilmenn í sláturferlinu. Matvælastofnun ber ábyrgð á að haldin séu hæfisnámskeið um meðferð dýra og aflífun, og gefur út hæfisskírteini þeim til handa sem standast próf. Hæfisskírteina er einnig krafist fyrir þá sem aflífa minka á minkabúum. Helstu ákvæði reglugerðarinnar hafa verið kynnt sláturleyfishöfum og á vormánuðum mun Matvælastofnun koma í sérstakar heimsóknir í sláturhús landsins til að skoða og aðstoða við innleiðingu einstakra þátta reglugerðarinnar. Í beinu framhaldi verður boðið upp á fyrstu hæfisnámskeiðin.

Eftirlit í sláturhúsum gefur vísbendingar um dýravelferð á bæjunum

Eins og fram hefur komið í fyrri pistlum hefur skipulag búfjáreftirlits breyst á þessu ári og verður nú áhættumiðað. Aukið eftirlit í sláturhúsum mun veita  ýmsar upplýsingar er varða velferð dýranna á búunum. Skráningar munu m.a. fela í sér skoðun á ýmsum þáttum sem notaðir eru til að mæla almenna velferð dýra. Auk holdafars verður skoðað sérstaklega hvort gripir séu óhreinir, hvort bruni sé í húð eða á fótum, sár og meiðsli, of langir hófar, klaufar eða önnur merki um vanrækslu. Einnig verður skráð hvort hrútar og nautkálfar/naut séu geltir eða með nasahring. Kallað verður þá eftir staðfestingu þess efnis að dýralæknir hafi framkvæmt aðgerðina, því ný dýravelferðarlög banna slíkar sársaukafullar aðgerðir án deyfingar. Þannig getur eftirlit í sláturhúsum aukið eftirlit með velferð dýra og auðveldað Matvælastofnun áhættuflokkun í frumframleiðslu þannig að eftirliti verði í meira mæli beint þangað þar sem þörfin er.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?