Fara í efni

Veiruskita í kúm á Suðurlandi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Veiruskita í kúm hefur stungið sér niður að undanförnu á Suðurlandi. Veiruskita er mjög smitandi en ekki er vitað með vissu um hvaða veiru er að ræða. Veikin gengur yfir í sveitum með nokkurra ára millibili. Þegar hún berst í fjós smitast flestar kýr sem ekki hafa smitast áður. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur fólki og hefur ekki áhrif á neysluhæfni afurða.

Mikilvægt er að bændur hugi vel að smitvörnum á búum sínum og dragi eins og mögulegt er úr umgengni utanaðkomandi fólks um búið og flutningi gripa og tækja milli búa. Þeir sem fara inn í gripahús ættu að nota hlífðarfatnað og stígvél búsins. Tæki sem notuð eru á búinu þarf að þrífa og sótthreinsa eins og kostur er, áður en þau eru notuð á öðrum búum.

Afleiðingar sjúkdómsins geta verið alvarlegar og langvarandi þar sem sjúkdómurinn veikir ónæmiskerfi kúnna þannig að þær verða viðkvæmari fyrir öðrum sjúkdómum, m.a. júgurbólgu og öðrum bakteríusýkingum. Sýkingin eykur hættu á doða hjá kúm sem komnar eru nálægt burði þegar þær veikjast. Mikilvægt er að kýrnar hafi góðan aðgang að drykkjarvatni og salti. Kýr sem veikjast falla verulega í nyt á meðan þær eru veikar og komast sjaldan í fulla nyt aftur á yfirstandandi mjaltaskeiði og veikin hefur einnig neikvæð áhrif á frjósemi þeirra. 

Einkenni veiruskitu svipar til einkenna sjúkdóms sem er vel þekktur erlendis og kallast “winter dysenteri”. Sá sjúkdómur smitast með saur og slími frá nösum. Smit berst mjög auðveldlega með fólki, dýrum og ýmsum hlutum, s.s. múlum, fatnaði, tækjum, bifreiðum o.s.frv. Oftast smitast allir næmir gripir á búinu á nokkrum dögum og sjúkdómurinn gengur yfir á einni til tveimur vikum.

Í þessu sambandi er minnt á rannsóknarverkefni á vegum Matvælastofnunar og Tilraunastöðvarinnar Háskóla Íslands á Keldum sem miðar að því að varpa ljósi á faraldsfræði veikinnar og hvaða veira veldur henni. Til að sú rannsókn skili sem bestum árangri er mikilvægt að fá upplýsingar um þróun sjúkdómsins frá sem flestum búum. Þeir bændur sem hafa lent í að fá veikina í fjósið hjá sér eru beðnir að fylla út eyðublað sem er að finna á hægri væng þessarar síðu, undir „eyðublöð“ og „rannsókn á veiruskitu í kúm ...“. Sá hluti rannsóknarinnar sem lýtur að því að finna orsök veikinnar byggist á að sýni séu tekin á nokkrum búum sem veikin kemur upp á. Fyrstu sýnin þarf að taka þegar veikin er í upphafsfasa eða í hámarki og þess vegna er mikilvægt að þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í rannsókninni hafi samband, strax og veikin kemur upp við Eggert Gunnarson eða Vilhjálm Svansson á Keldum í síma 5855100.


Getum við bætt efni síðunnar?