Fara í efni

Vegna umfjöllunar um sauðfjárhald í Borgarfirði

Mikið hefur verið fjallað um sauðfjárhald á bæ í Borgarfirði, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að undanförnu. Aðkoma Matvælastofnunar hefur verið talsvert gagnrýnd, stofnunin vænd um að sinna ekki skyldum sínum o.fl. Af þessari ástæðu vill stofnunin taka fram að vel er fylgst með málinu og fara starfsmenn stofnunarinnar oft í eftirlit til að fylgja eftir kröfum um úrbætur. Séð er til þess að féð fái nægt fóður og heilnæmt vatn. Lömb eru merkt, ám og lömbum gefið ormalyf og lömb meðhöndluð við skitu ef þörf er á. Féð er síðan fært í annað hólf að þessu loknu.

Nú þegar aðstoða tveir aðilar við búskapinn meðan á sauðburði stendur. Þá hefur Matvælastofnun gert kröfu um að þriðji aðili aðstoði ábúendur til að tryggja velferð dýranna enn frekar.

Stofnunin hefur gert kröfu um verulega fækkun fjár á bænum í haust þannig að eftir verði aðeins nokkrir tugir kinda Ábúendur hafa með skriflegum hætti samþykkt þá kröfu. Mun stofnunin fylgja kröfunni eftir í haust.


Getum við bætt efni síðunnar?