Fara í efni

Vegna greiningar ISA-veiru hjá Löxum Fiskeldi í innanverðum Reyðarfirði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í kjölfar þess að Laxar Fiskeldi tæmdi kvíabólið við Gripalda vegna blóðþorrans (ISA) sem þar greindist í lok nóvember sl. fór sú staðsetning í lögbundna hvíld en jafnframt voru aðrar staðsetningar settar undir stranga skimunaráætlun. Sýna-seríur hafa verið teknar í hverjum mánuði allt frá því í desember og hafa verið tekin á þriðja þúsund sýni á svæðinu til sértækrar qPCR-greiningar. Allt fram til í apríl voru niðurstöður góðar og hvergi útslag með tilliti til hinnar meinvirku ISA-veiru. Við síðustu sýnatöku sýndi eitt stakt sýni af 288 sýnum á Sigmundarhúsum grunsamlega svörun, en sú staðsetning liggur næst Gripalda og er undir sama rekstrarleyfi. Allt hefur verið með eðlilegum hætti á svæðinu og laxinn frískur og dafnað eðlilega. Þetta eru svokölluð haustseiði sem sett voru út síðastliðið haust, alls um milljón seiði að meðalþyngd um 475 gr.

Tilraunastöðin á Keldum staðfesti fyrstu grunsemd og voru sýni einnig send til rannsóknastofu í Leipzig til nánari raðgreiningar. Endanleg svör bárust í vikunni og niðurstaðan staðfestir að um er að ræða hið meinvirka afbrigði veirunnar (ISA HPR-deleted).

Til að gæta fyllstu varúðar hafa Laxar Fiskeldi í samvinnu við Matvælastofnun nú þegar virkjað aðgerðaráætlun með tilliti til slátrunar og tæmingu allra kvía. Þar með mun allur innanverður Reyðarfjörður tæmast fyrir laxi og fara í eldishvíld. Með þessari aðgerð skal gert hið ýtrasta til að uppræta og hreinsa svæðið fyrir veirusmiti.


Getum við bætt efni síðunnar?