Fara í efni

Varnir gegn kverkeitlabólgu í hrossum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í tengslum við umræðu um kverkeitlabólgu í Svíþjóð vill Matvælastofnun vekja athygli á mikilvægi smitvarna til að viðhalda góðri sjúkdómastöðu í hrossum hér á landi.

Kverkeitlabólga er alvarlegur hrossasjúkdómur sem telst landlægur í öllum okkar nágrannalöndum þó alla jafna takist að einangra þau tilfelli sem upp koma og hindra faraldra. 

Sjúkdómurinn hefur aldrei greinst í hrossum hér á landi, þökk sé ströngum reglum um smitvarnir; banni við influtningi lifandi hrossa, notaðra reiðtygja, annars búnaðar og hanska, auk þess sem strangar kröfur eru gerðar um hreinsun fatnaðar sem notaður hefur verið í umhverfi hesta erlendis.

Fyrstu einkennin eru hár hiti og lystarleysi en fljótlega kemur nefrennsli (fyrst glært en svo graftarkennt) og miklar bólgur í eitla í höfði og hálsi, jafnvel svo að hætta er á köfnun. Með tímanum grafa eitlarnir út með miklum sárum og sársauka hjá hestunum. Meðhöndlun með penicillini er til lítils gagns þrátt fyrir að bakterían sé næm fyrir lyfinu, því hún seinkar aðeins einkennunum og er eingöngu réttlætanleg ef líf hestsins liggur við. Sjúkdómurinn veldur hrossum miklum þjáningum í langan tíma og hefur því mikil áhrif á velferð þeirra. Dánartíðni er 2-8%.

Orsök sjúkdómsins er afar sérhæfð tegund streptókokkabaktería, Streptococcus equi, sem hefur fundið leið til að valda viðvarandi sýkingu (verjast ónæmiskerfi hesta) með því að taka sér bólfestu í fellingu í slímhúð efri öndunarvegar, s.k. loftpoka. Loftpokann er aðeins er að finna hjá hestum og bakterían er meinlaus öðrum dýrategundum og mönnum. 

Eftir að sýkingin virðist gengin yfir getur bakterían leynst í loftpokanum og farið þar á nokkurskonar dvalarstig. Allt að 10% hesta sem veikjast enda með þessum hætti sem frískir smitberar og viðhalda smitefninu. Þess vegna yrði mjög erfitt að útrýma sjúkdómnum ef hann bærist til landsins.

Grun um sjúkdóminn ber að tilkynna tafarlaust til sjálfstætt starfandi dýralæknis eða Matvælastofnunar. Sértæk viðbragðsáætlun gegn sjúkdómnum byggir á langvarandi einangrun hrossaræktarbúa og/eða hesthúsa/hesthúsahvefa þar sem veikin kæmi upp og þeirra sem mögulega hefðu verið í tengslum við þá staði allt að tveimur vikum áður, samhliða reglubundinni sýnatöku og greiningarvinnu. Kostnaðurinn yrði gríðarlegur og gæti ógnað hrossaræktinni og annari hestatengdri atvinnustarfsemi.

Því er til mikils að vinna að hindra að sjúkdómurinn berist til landsins. Allir sem á einhvern hátt koma að hestamennskunni þurfa að standa saman um að virða gildandi reglur um smitvarnir og koma þeim upplýsingum til sinna viðskiptavina. Mest hættan liggur óhjákvæmilega hjá atvinnumönnum sem fara milli landa í tengslum við sína starfsemi, s.s. reiðkennurum, járningamönnum, hrossaræktendum o.fl. og þeir verða að ganga fram með góðu fordæmi.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?