Fara í efni

Úttekt ESA á eftirliti með vernd dýra við aflífun

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur birt skýrslu með niðurstöðum eftirlits sem framkvæmt var dagana 4. til 13. október 2021. Tilgangur úttektarinnar var að staðfesta að opinbert eftirlit með vernd dýra við aflífun á Íslandi væri framkvæmt í samræmi við löggjöf EES. Megin niðurstöður úttektarinnar eru að Ísland hefur sett upp eftirlitskerfi sem almennt uppfyllir kröfur löggjafarinnar sem var innleidd á Íslandi í janúar árið 2012 en að styrkja þurfi ákveðin atriði í framkvæmd eftirlitsins.

Niðurstöður eftirlits ESA eru settar fram í lokaskýrslu.

Þar koma fram athugasemdir um að auka þurfi þjálfun og bæta símenntun eftirlitsdýralækna í sláturhúsum og bæta þurfi úr eftirfylgni frávika og eftirliti með búnaði og verkferlum. Einnig er bent á að bæta þurfi við eftirlitsáætlun um vernd dýra við aflífun inn í landsbundna eftirlitsáætlun til margra ára (LEMA) og að eftirlitið skulu vera áhættuflokkað.

Tryggja þarf að eingöngu þeir starfsmenn sláturhúsa sem staðist hafa próf um vernd dýra við aflífun og séu þar með handhafar hæfisskírteinis, vinni með lifandi dýr í sláturhúsi. Einnig þarf að tryggja að rekstraraðilar sláturhúsa framfylgi þeim kröfum sem gerðar eru til verndar dýra við aflífun.

Með skýrslunni fylgir tímasett úrbótaáætlun frá eftirlitsaðilum hérlendis. Vinna við úrbætur er nú þegar hafin.


Getum við bætt efni síðunnar?