Fara í efni

Úttekt ESA á eftirliti með efnaleifum og aðskotaefnum í lifandi dýrum og dýraafurðum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur birt skýrslu með niðurstöðum rafræns eftirlits sem framkvæmt var dagana 31. maí til 14. júní 2021. Tilgangur úttektarinnar var að staðfesta að opinbert eftirlit með efnaleifum og aðskotaefnum í lifandi dýrum og dýraafurðum á Íslandi væri framkvæmt í samræmi við löggjöf EES. Meginniðurstöður úttektarinnar eru að Ísland hefur sett upp eftirlitskerfi sem almennt uppfyllir kröfur löggjafarinnar sem var innleidd á Íslandi í janúar árið 2012 en að styrkja þurfi ákveðin atriði í framkvæmd eftirlitsins.

Niðurstöður eftirlits ESA eru settar fram í lokaskýrslu. Þar koma fram tvær athugasemdir sem krefjast úrbóta. Í fyrri athugasemdinni er farið fram á að Matvælastofnun skuli tryggja að engin óþarfa seinkun sé frá því að efnaleifasýnum er safnað og þar til rannsóknaniðurstöður sýnanna liggja fyrir. Í seinni athugasemdinni kemur fram að Matvælastofnun skuli tryggja að sýnatökuáætlunin sé hönnuð til að hámarka greiningu ólöglegra meðferða og að viðhaft sé virkara eftirlit með að afurðarnýtingafrestur sé virtur.

Með skýrslunni fylgir tímasett úrbótaáætlun frá eftirlitsaðilum hérlendis. Vinna við úrbætur er nú þegar hafin.

 

Getum við bætt efni síðunnar?