Úttekt á eftirliti með aukaafurðum dýra
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tók út eftirlit með aukaafurðum dýra á Íslandi dagana 11. - 20. júní s.l. og hefur nú birt skýrslu um niðurstöðu hennar. Megintilgangur úttektarinnar var að sannreyna að opinbert eftirlit í tengslum við aukaafurðir dýra sé framkvæmt í samræmi við löggjöf EES.
Stofnunin kom hingað til lands í sambærilega úttekt árið 2013 og opnaði í kjölfar hennar mál gagnvart íslenskum stjórnvöldum vegna vandkvæða við innleiðingu Evrópulöggjafar um aukaafurðir dýra sem og rangrar förgunar á aukaafurðum, einkum förgun á óunnum aukaafurðum dýra frá sláturhúsum og dýrahræja á urðunarstöðum og greftrun dýrahræja heima á bæjum. Í skýrslu ESA sem nú birtist er bent á að takmarkaðar framfarir hafa orðið frá fyrri úttekt og í sumum tilfellum engar. Því hyggst stofnunin sækja mál sitt áfram gagnvart stjórnvöldum.
Núgildandi EES löggjöf um aukaafurðir hefur nú verið innleidd hér á landi og lögbær yfirvöld hafa verið tilnefnd. Gerðar eru athugasemdir um að þrátt fyrir það er ekki tryggt að opinbert eftirlit sé með öllu ferli aukaafurða dýra og afleiddum afurðum af þeim, þar sem lögbær yfirvöld taki ekki alltaf mið af EES reglum í eftirliti sínu og við þjálfun á starfsfólki.
Í skýrslunni kemur einnig fram að ekki hafa öll fyrirtæki sem meðhöndla aukaafurðir dýra verið skráð eða samþykkt. Einnig voru gerðar athugasemdir við að sendingar á aukaafurðum dýra og afleiddum afurðum til annarra EES ríkja eru ekki alltaf í samræmi við reglur hvað varðar notkun á TRACES, sem er samevrópskt skjalakerfi fyrir útgáfu á samræmdum innflutningsvottorðum fyrir dýrafurðir.
Skortur á aðgerðum lögbærra yfirvalda til að takast á við ofangreind atriði, einkum er varðar kröfur um söfnun, fjarlægingu, auðkenningu og förgun á aukaafurðum dýra og sérstöku áhættuefni, getur leitt af sér mögulega uppsprettu áhættu fyrir heilbrigði manna og dýra.
Matvælastofnun, í samstarfi við Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og hlutaðeigandi ráðuneyti, hefur tekið athugasemdirnar sem settar eru fram í skýrslu ESA til greina og vinnur í samræmi við tímasetta aðgerðaáætlun sem lögð var fram í kjölfar úttektarinnar. Áætlunin og athugasemdir íslenskra stjórnvalda koma fram í viðauka skýrslunnar.