Fara í efni

Útgáfa rekstrarleyfis til fiskeldis í Reyðarfirði felld úr gildi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar um að veita Löxum Fiskeldi ehf. rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi með 10.000 tonna hámarkslífmassa í Reyðarfirði.

Matvælastofnun lagði álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar, en vék frá álitinu varðandi þyngd seiða við útsetningu. Skipulagsstofnun lagði til að sett yrði skilyrði í rekstrarleyfi um að seiði yrðu að lágmarki 200g að þyngd við útsetningu, sbr. fyrirætlanir í umhverfismatsgögnum. Matvælastofnun setti skilyrði um 56g lágmarkstærð seiða í rekstrarleyfinu.

Skilyrði Skipulagsstofnunar eru ekki bindandi en rökstyðja þarf ef vikið er frá þeim. Í greinargerð Matvælastofnunar er þess getið að stofnunin hafi með hliðsjón af eldri tilmælum Hafrannsóknastofnunar sett viðbótarskilyrði um mótvægisaðgerðir til að draga úr áhættu fyrir villta laxastofna, m.a. að draga úr hættu á stroki útsettra seiða með því að samstilla möskvastærð nótarpoka og lágmarksstærð útsettra seiða. Ekki hafi verið efnisleg ástæða út frá áhættumati Hafrannsóknarstofnunar vegna erfðablöndunar að binda leyfið við 200g lágmarkstærð.

Niðurstaða nefndarinnar, bæði meirihluta og minnihluta, byggir á þeirri forsendu að Matvælastofnun hafi ekki verið heimilt að setja skilyrði í rekstrarleyfi þess efnis að lágmarksþyngd seiða skuli vera 56g, enda hafi mat á umhverfisáhrifum ekki farið fram á því að nota seiði að þyngd 56–199g.

Matvælastofnun hefur farið yfir forsendur úrskurðarins og mun í framhaldinu auglýsa ný drög að rekstrarleyfi fyrir 10.000 tonna eldi Laxa Fiskeldis ehf. (hét áður Laxar eignarhaldsfélag ehf.) í Reyðarfirði.

Ítarefni

Uppfært 25.05.21 kl. 11:15


Getum við bætt efni síðunnar?