Fara í efni

Úrskurður vegna stjórnsýslukæra Villikatta

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið úrskurðaði þann 8. nóvember sl. í tveimur málum sem félagssamtökin Villikettir kærðu til ráðuneytisins. 

Fyrra málið varðar bréf sem dýralæknir Matvælastofnunar sendi sjálfstætt starfandi dýralæknum þar sem áréttað er bann í lögum um velferð dýra við því að fjarlægja líkamsparta, annað en að gelda eða taka úr sambandi eða önnur atriði af heilsufarslegum ástæðum. Í bréfinu er ítrekað að eyrnaklipping feli í sér að fjarlægja líkamsparta og sé því brot á lögunum. 

Í úrskurðinum kemur fram að ágreiningur er milli Matvælastofnunar og Villikatta um hvort reglugerð um velferð gæludýra nr. 80/2016 geti átt við um ketti sem enginn umráðamaður telst að og hvort það að marka þá ketti (klippa af eyrum) geti talist viðurkennd merkingaraðferð í samræmi við þau lög og reglugerðir sem Matvælastofnun hefur eftirlit með að sé framfylgt.  Kæru Villikatta var vísað frá en því beint til Matvælastofnunar að fá álit fagráðs um velferð dýra, á því hvort eyrnaklippingar á villiköttum séu heimilar.

Í seinna málinu var kærð sú ákvörðun Matvælastofnunar að skylda Villiketti, til að skila  kettlingum á aldrinum 2-6 vikna aftur til mæðra sinna, en skv. 3. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 80/2016 um velferð gæludýra, segir að aðeins sé heimilt að skilja kettling yngri en 8 vikna frá læðu í undantekningartilfellum og þá aðeins vegna aðstæðna sem krefjast þess. Matvælastofnun taldi brýnt með tilliti til kettlinganna og mæðra þeirra, að þeim yrði skilað sem fyrst, sbr. fyrrgreint ákvæði reglugerðar um velferð gæludýra og krafðist þess að Villikettir skiluðu kettlingunum. Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið staðfesti þá ákvörðun.

Ítarefni

Frétt uppfærð 08.01.18 kl. 9:45


Getum við bætt efni síðunnar?