Fara í efni

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar Matvælastofnunar um vörslusviptingu á tveimur hundum

Matvælastofnun barst tilkynning frá lögreglu um að tveir hundar hefðu verið skildir eftir einir og eftirlitslausir í húsakynnum eiganda þeirra. Voru hundarnir að mati lögreglu í slæmu ásigkomulagi, án vatns en smávegis af þurrmat í skál.

Matvælastofnun fór samdægurs og kannaði aðstæður hundanna, fjarlægði þá af heimilinu og fór með þá til dýralæknis. Var það samdóma álit lögreglu og starfsmanna Matvælastofnunar að aðbúnaður og ástand hundanna hafi verið óboðlegur með vísan til laga um velferð dýra og reglugerðarákvæða og því þyrfti að fjarlægja þá úr vörslum eiganda. Í skýrslu dýralæknisins kemur m.a. fram að feldur hundanna hafi verið flæktur, saur og úrgangur hafi verið fastur í feld, klær orðnar aflaga vegna vanhirðu á klippingu og slæm reykinga/vanhirðu lykt hafi verið af þeim. Því til viðbótar voru hundarnir með tannstein og tannholdsbólgu.

Matvælastofnun upplýsti eiganda um vörslusviptinguna og veitti honum samhliða frest til að koma á framfærum andmælum, engin andmæli bárust. Eftir að eigandi hafði verið upplýstur um vörslusviptinguna óskaði hann eftir svörum um stöðu málsins og var þá upplýstur um að málinu væri lokið af hálfu stofnunarinnar og að unnt væri að kæra málið til matvælaráðuneytisins.

Í forsendum úrskurðarins segir að lögum um velferð dýra sé ætlað að stuðla að því að þau séu m.a. laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Þá segir að umráðamönnum sé skylt að fara vel með dýr, ill meðferð sé óheimil og að umráðamönnum beri að sinna þörfum dýra að jafnaði einu sinni á dag og tryggja gæði og magn fóðurs og vatns.

Var það mat ráðuneytisins að skilyrði 38. gr. laga um vörslusviptingu væri uppfyllt. Ákvörðun Matvælastofnunar og ráðstöfun hundanna hafi byggt á upplýsingum um óviðunandi meðferð og aðbúnað hundanna, skoðun dýralæknis á hundunum og að ákvörðun hafi verið gerð í samráði við lögreglu. Ákvörðun um vörslusviptinguna hafi verið í samræmi við meðalhóf þar sem öll gögn málsins vísi til þess að úrbætur hafi ekki þolað bið. Ekkert hafi komið fram um að rannsókn málsins hafi verði áfátt eða að jafnræðis hafi ekki verið gætt.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?