Fara í efni

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru varðandi innflutning á trjábolum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælaráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð vegna stjórnsýslukæru PCC BakkiSilicon hf. vegna höfnunar á innflutningi á trjábolum með breki.

Matvælastofnun hafnaði beiðni kæranda á grundvelli þess að innflutningur trjábola með berki væri bannaður ef sendingin samanstæði af villtum plöntum sem safnað væri á víðavangi. Stofnunin byggði á því að með villtum plöntum væri átt við óáreitta ræktun án stýrðra aðstæðna og að trjábolir sem komi úr umfangsmikilli ræktun nytjaskóga á stórum landsvæðum gætu ekki fallið undir stýrða framleiðsla. Í slíkum tilvikum væri ekki vitneskja um hvort og þá hvaða bakteríur, veirur og/eða aðrir skaðvaldar s.s. sveppir og skordýr geti leynst í trjábolunum. Jafnframt væri erfitt að meta tilvist skaðvalda með heilstæðum og markvissum hætti.

Kærandi hafnaði túlkun Matvælastofnunar og kærði ákvörðun stofnunarinnar m.a. á grundvelli þess að trjábolirnir gætu ekki fallið undir „villtar plöntur sem safnað hefði verið á víðavangi“ og að innflutningurinn væri heimill þar sem heilbrigðisvottorð fylgdi sendingunni, sbr. skilyrði þess efnis í reglugerð.

Ráðuneytið taldi að gera yrði ríkar kröfur til skýrleika réttarheimilda sem fela í sér takmörkun á réttindum borgara. Eins og málum væri háttað til í málilnu yrði að ætla að til þess að vikið væri frá þeirri meginreglu sem sett væri fram í 5. gr. reglugerðar nr. 189/1990 um innflutning og útflutning plantna og plöntuafurða, sem heimili innflutning á trjáviði með breki, þurfi að vera hægt að fella slíkt undir bann 4. gr. reglugerðarinnar með afdráttarlausum hætti. Fyrir lægi heilbirgðisvottorð og ekkert hafi komið fram um að umrætt vottorð uppfylli ekki kröfur. Þvert á móti liggi fyrir yfirlýsing yfirvalda í Póllandi að þau líti ekki á að trjábolirnir teljist villtar plöntur sem safnað hafi verið á víðavangi.

Matvælaráðuneytið felldi ákvörðun Matvælastofnunar úr gildi og hefur gert stofnuninni að taka málið til meðferðar að nýju.


Getum við bætt efni síðunnar?