Fara í efni

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru varðandi beiðni um heimaeinangrun á tveimur stuðningshundum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælaráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð vegna stjórnsýslukæru vegna synjunar Matvælastofnunar um undanþágu til heimaeinangrunar vegna tveggja hunda.

Matvælastofnun barst fyrirspurn fyrr á árinu varðandi skilyrði fyrir heimaeinangrun. Stofnunin upplýsti um viðkomandi reglur og vísaði til leiðbeininga um innflutning hjálparhunda á heimasíðu stofnunarinnar. Innflytjandi sótti í kjölfarið um leyfi til innflutnings á hundunum skv. hefðbundnu ferli og var leyfið veitt. Hundarnir komu til landsins og fóru í einangrunarstöð. Eftir komuna þangað barst stofnuninni beiðni um undanþágu til að hafa hundana í heimaeinangrun þar sem um hjálparhunda væri að ræða.

Um innflutninginn gilda ákvæði reglugerðar nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta. Hún var sett í kjölfar áhættumats um innflutning hunda og katta með sérstaka áherslu á hjálparhunda. Meginreglan er að hunda og ketti skal flytja rakleiðis í einangrunarstöð við komu til landsins. Um einangrun og starfsemi einangrunarstöðva gilda ákveðnar reglur sem ætlað er að fyrirbyggja að sjúkdómar berist til landsins við innflutning. Eina heimild fyrir undanþágu til heimaeinangrunar er vegna innflutnings á hjálparhundum og stofnunin hefur ekki heimild til þess að leyfa heimaeinangrun hunda nema um sé að ræða vottaða hjálparhunda.

Hjálparhundur er skv. skilgreiningu reglugerðarinnar leiðsöguhundur fyrir blinda, merkjahundur fyrir heyrnarskerta eða hjálparhundur fyrir hreyfihamlaða, flogaveika og sykursjúka, sem aðstoðar einstaklinga með ofangreindar greiningar við að takast á við umhverfi sitt og hefur vottaða þjálfun sem samþykkt er af Matvælastofnun.

Matvælastofnun hafnaði erindinu með vísan til þess að hundarnir féllu ekki undir skilgreiningu reglugerðarinnar um hjálparhunda og þeir væru ekki vottaðir sem slíkir. Skýr greinarmunur væri á hjálparhundum og stuðningshundum. Hjálparhundar eru sérþjálfaðir vottaðir þjónustuhundar sem gegna tilteknu hlutverki en stuðningshundar eru gæludýr og taldi stofnunin sig ekki hafa heimild til að víkja frá kröfu um hefðbundna einangrun þegar kemur að stuðningshundum, enda teldust slíkir hundar ekki hjálparhundar, þeir hafa ekki vottaða þjálfun og ekki þurfi að uppfylla nein sérstök skilyrði til að skilgreina hund sem stuðningshund.

Matvælaráðuneytið staðfesti ákvörðun Matvælastofnunar og tók undir sjónarmið stofnunarinnar að um sé að ræða stuðningshunda sem hjálpi kæranda með sína andlegu líðan en ekki hjálparhunda í skilningi reglugerðarinnar.

 

Ítarefni:  Stjórnarráðið


Getum við bætt efni síðunnar?