Fara í efni

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru varðandi beiðni um heimaeinangrun á fjórum hundum

Matvælaráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð vegna stjórnsýslukæru vegna synjunar Matvælastofnunar um undanþágu til heimaeinangrunar við innflutning á fjórum hundum.

Um innflutninginn gilda ákvæði laga nr. 54/1990 um innflutning dýra sem og ákvæði reglugerðar nr. 200/2020 um innflutning hunda og katta og nr. 201/2020 um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr. Reglugerðirnar voru settar í kjölfar áhættumats um innflutning hunda og katta með sérstaka áherslu á hjálparhunda. Meginreglan er að hunda og ketti skal flytja rakleiðis í einangrunarstöð við komu til landsins. Um einangrun og starfsemi einangrunarstöðva gilda ákveðnar reglur sem ætlað er að fyrirbyggja að sjúkdómar berist til landsins við innflutning. Eina heimild skv. reglugerðunum fyrir undanþágu til heimaeinangrunar er vegna innflutnings á hjálparhundum.

Umsóknin var ekki byggð á því að um hjálparhunda væri að ræða. Kærendur byggðu á að ráðherra hefði verið óheimilt að afnema með reglugerð það skyldubundna mat Matvælastofnunar sem ákvæði laga um innflutning dýra mælir um varðandi skilyrði til heimaeinangrunar og að velferð hundanna sé betur gætt við heimaeinangrun í stað einangrun í einangrunarstöð.

Í forsendum segir að kröfur vegna innflutnings dýra séu strangar og meginreglan er að innflutningur er bannaður og skuli undantekningar frá slíku banni túlkaðar þröngt. Lögin veiti Matvælastofnun heimild til þess að leggja mat á hvort heimilt sé að leyfa að einstök dýr fái heimild til heimaeinangrunar. Ráðherra hafi heimild til að setja reglugerð um framkvæmd laganna og að ljóst sé að undanþágu um heimaeinangrun hafi ekki verið ætlað að ná til fjölskyldu- og heimilishunda. Tilgangurinn væri eingöngu að rýmka fyrir í sérstökum tilvikum og að heimilt hafi verið að takmarka undanþágu heimaeinangrunar í reglugerð við hjálparhunda, slíkt sé í samræmi við ákvæði laganna og vilja löggjafans.

Matvælaráðuneytið staðfesti ákvörðun Matvælastofnunar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?