Fara í efni

Umræða um litarefni og hegðunarvanda hjá börnum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Vegna frétta í fjölmiðlum um merkingu matvæla sem innihalda tiltekin litarefni og þess sem komið hefur fram af hálfu Neytendasamtakanna um þetta mál vill Matvælastofnun (MAST) koma þeim upplýsingum á framfæri að löggjöf um leyfisveitingaferli fyrir aukefni og fleiri efnasambönd er í endurskoðun hjá Evrópusambandinu (ESB). Það er rétt sem komið hefur fram að Evrópuþingið samþykkti þann 8. júlí s.l. drög að nýjum reglum með breytingartillögum, þar á meðal tillögu um að matvæli sem innihalda tiltekin asólitarefni verði merkt með varúðarmerkingu. Þar með hefur þessi löggjöf hins vegar ekki verið samþykkt hjá ESB og því óvíst hver niðurstaðan verður.

Sú sameiginlega afstaða sem samþykkt var af hálfu Evrópuþingsins fer nú til skoðunar hjá Framkvæmdastjórn ESB sem mun gefa álit sitt á þessari breytingartillögu varðandi merkingu litarefna. Síðan fara drög að þessum reglum í aðra umræðu hjá Ráðherraráði sambandins, sem mun taka afstöðu til breytingartillögu Evrópuþingsins og álits Framkvæmdastjórnarinnar á henni. Þetta ferli getur tekið nokkra mánuði og alls óvíst að breytingartillaga þingsins verði samþykkt. Hvernig sem mál þetta fer má reikna með að endanlega samþykkt löggjöf um þessi efnasambönd taki ekki gildi innan ESB fyrr en á árinu 2009. Matvælafyrirtæki munu síðan fá aðlögunartíma til að gera nauðsynlegar breytingar á vörum og umbúðum ef nýjar reglur kunna að gera kröfu um slíkt.

Við skoðun á breytingartillögu Evrópuþingsins verður að gera ráð fyrir að Framkvæmdastjórn ESB muni leita álits hjá Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA). Sérfræðinefnd EFSA um aukefni er nú að fara yfir eiturefnafræðilegt mat á öllum litarefnum sem leyfð eru í matvælum á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og er gert ráð fyrir að einhverjar niðurstöður varðandi þau litarefni sem hér eru til umræðu verði birtar fyrir lok þessa árs. Jafnframt má ætla að Framkvæmdastjórnin muni hafa til hliðsjónar álit sem EFSA gaf út fyrr á þessu ári eftir að sérfræðinefnd stofnunarinnar hafði farið yfir niðurstöður nýlegrar breskrar rannsóknar á áhrifum neyslu tiltekinna litarefna og eins rotvarnarefnis á hegðun barna.

Niðurstaða sérfræðinefndar EFSA var að í þessari bresku rannsókn hafi ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að tengsl væru milli neyslu aukefna, sem gefin voru í tveimur aukefnablöndum sem innihéldu bæði litarefni og eitt rotvarnarefni, og hegðunar í tveimur aldurshópum barna sem þátt tóku í rannsókninni. EFSA bendir einnig á vissa þætti í framkvæmd rannsóknarinnar sem geta varðað áreiðanleika niðurstaðna hennar og þar með þær ályktanir sem hægt er að draga af þeim. Ef um marktæk áhrif er að ræða er t.d. ekki hægt að segja til um hvort þau eru af völdum tiltekinna litarefna eða þess rotvarnarefnis sem í blöndunum var eða hvort um samverkandi áhrif er að ræða.

Fréttatilkynningu EFSA og sérfræðiálit stofnunarinnar frá því í mars 2008 má nálgast hér. Þar er einnig tengill á heimasíðu vísindaritsins The Lancet þar sem niðurstöður úr rannsókn á neyslu aukefna og áhrifa á hegðun barna voru birtar á síðastliðnu ári.  

Núverandi reglugerð um aukefni í matvælum er að finna hér.


Getum við bætt efni síðunnar?