Fara í efni

Umfang slysasleppingar í Tálknafirði í sumar skv. sláturtölum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Sláturtölur úr sjókví Fjarðalax í Tálknafirði þar sem slysaslepping átti sér stað í byrjun júlí 2018 bárust Matvælastofnun í síðustu viku. Mismunurinn á fjölda slátraða fiska og áætlaðs fjölda fiska skv. gögnum Fjarðalax er 4.981 fiskur. Matvælastofnun getur ekki áætlað hve margir fiskar hafa raunverulega sloppið vegna ýmissa óvissuþátta í eldisferlinu.

Matvælastofnun hefur lokið skoðun á umfangi slysasleppingar í Tálknafirði sl. sumar. Alls var áætlað að 152.916 eldislaxar væru í sjókví Fjarðalax í Tálknafirði áður en slysasleppingin átti sér stað. Frá því að slysið átti sér stað og fram að slátrun voru skráð afföll 4.651 fiskur í kvínni skv. talningum Fjarðalax. Samkvæmt sláturtölum sem stofnuninni hafa borist var 143.284 fiskum slátrað, ef frá eru talin skráð afföll er misræmi í tölum fyrirtækisins upp á 4.981 fisk.

Ekki er allur dauður fiskur talinn og því er líklegt að slysasleppingin hafi verið umfangsminni en ofangreind tala upp á 4.981 fisk gefur til kynna. Uppsöfnuð skekkja á fjölda fiska í kvíum á sér stað yfir allan eldisferilinn sökum ýmissa óvissuþátta og eru helstu ástæður fyrir því eftirfarandi fyrir umrædda kví:

  • Fjöldi dauðra fiska er að öllu jöfnu meiri en þau afföll sem eldisfyrirtæki skrá. Ástæða þess er að allur dauður fiskur skilar sér ekki í dauðfiskabúnaðinn á botni sjókvía. Fiskur sem ekki skilar sér í búnaðinn rotnar og fellur til botns ef ekki er unnt að safna dauðum fiski daglega. Vegna ytri aðstæðna er ekki hægt að safna dauðum fiski daglega. 
  • Umtalsverð afföll urðu vegna útsetningar seiða og einnig vegna frávika í búnaði og flutninga fisks í febrúar sl. Þegar afföll verða meiri getur það leitt til skekkju þar sem hver og einn fiskur er ekki talinn eins og gert er þegar afföll eru eðlileg heldur er magnið áætlað. 
  • Skekkja er í talningu seiða í kvíar og við talningu eldisfisks sem fluttur er á milli kvía. Fiskur úr tveimur öðrum sjókvíum hafði verið fluttur í þá sjókví sem slysaslepping varð úr. Skv. upplýsingum frá söluaðila búnaðar getur skekkjan í talningu verið allt að 2 %. 

Fjarðalax er í eigu Arnarlax. Mat fyrirtækisins er að um 300 fiskar hafi sloppið og er matið byggt á tölum um endurveiði, skekkju í talningarbúnaði, fóðurnýtingu á eldistímanum og stærri afföllum. Matvælastofnun getur ekki sannreynt niðurstöður fyrirtækisins. Ljóst er að slysaslepping átti sér stað en vegna óvissuþátta getur stofnunin ekki fullyrt um nákvæman fjölda fiska sem sluppu.

Ítarefni

Frétt uppfærð 26.10.18 kl. 11:37


Getum við bætt efni síðunnar?