Fara í efni

Tillaga að breytingu á rekstrarleyfi Fiskeldis Austfjarða í Fáskrúðsfirði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að breytingu á rekstrarleyfi Fiskeldis Austfjarða í Fáskrúðsfirði. Fyrirtækið er með rekstrarleyfi fyrir 11.000 tonna hámarkslífmassa af laxi í Fáskrúðsfirði (FE-1139) sem var gefið út 21. mars 2019. Heimilaður hámarkslífmassi á frjóum laxi er 6.000 tonn og ófrjóum laxi 5.000 tonn sem samræmdist þágildandi áhættumati Hafrannsóknastofnunar vegna erfðablöndunar frá árinu 2017. Tillaga að breytingu á rekstrarleyfi byggir á tilkynningu Fiskeldis Austfjarða frá 2020 og ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2021 um breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Fáskrúðsfirði. Tillagan byggir einnig á uppfærðu áhættumati Hafrannsóknastofnunar vegna erfðablöndunar í maí 2020. Það gerir ráð fyrir 12.000 tonnum af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði. 

Breytingin á rekstrarleyfinu heimilar allt að 11.000 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði og færslu eldissvæðanna. Eldissvæðið við Æðasker verður lagt af en þess í stað afmarkað nýtt eldissvæði í firðinum sunnanverðum sem kallast Einstigi. Þá er gert ráð fyrir að flytja svæði við Höfðahúsabót og Eyri/Fögrueyri austar ásamt því að breyta afmörkun þeirra. Eftir breytingar verða tvö svæði í sunnanverðum firðinum og eitt svæði í firðinum norðanverðum. Einnig er um að ræða breytingu á útsetningaráætlun og sjókvíeldissvæðum. Seiði verða sett út þriðja hvert ár á hvert eldissvæði í stað þriðja hvert ár á öll eldissvæðin í einu.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Matvælastofnun á mast@mast.is. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 2. mars 2021.

Ítarefni

Uppfært 03.02.21 kl. 13:50


Getum við bætt efni síðunnar?