Fara í efni

Tillaga að breytingu á rekstrarleyfi Arnarlax til fiskeldis í Arnarfirði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að breytingu á rekstrarleyfi Arnarlax ehf. í Arnarfirði. Fyrirtækið er með rekstrarleyfi fyrir 10.000 tonna hámarkslífmassa af laxi á sex eldissvæðum í Arnarfirði (FE-1105), gefið út 6. maí 2016. Tillaga að breytingu á rekstrarleyfi byggir á tilkynningu Arnarlax frá árinu 2020 og ákvörðun Skipulagsstofnunar frá árinu 2021 um breytingu á staðsetningum og stærð eldissvæða.

Breytingin á rekstrarleyfinu heimilar færslu og stækkun á eldissvæðunum Haganesi, Steinanesi og Hringsdal. Megin tilgangur þessara breytinga er að hafa kost á því að snúa kvíasamstæðum þvert á straumstefnu og tryggja þannig jafnari strauma og betra súrefnisflæði um eldiskvíarnar, minnka möguleg umhverfisáhrif og að rými sé til staðar til að færa eldiskvíar til innan eldissvæðanna ef bregðast þarf við vegna uppsöfnunar lífrænna efna undir kvíunum. Eldissvæðin Tjaldaneseyrar, Hlaðsbót og Kirkjuból verða óbreytt.

Í samræmi við 13. gr. reglugerðar nr. 540/2020 mun gildistími rekstrarleyfisins haldast óbreyttur.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar á Matvælastofnun á mast@mast.is. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 4. maí 2022.

 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?