Fara í efni

Tækifæri til að fjölga Skráargatsmerktum vörum á markaði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Með nýjum reglum um notkun á norræna Skráargatsmerkinu verður auðveldara fyrir neytendur að velja holl matvæli. Þann 26. mars tók ný Skráargatsreglugerð gildi hér á landi með breyttum skilyrðum fyrir notkun á merkinu. Tilgangur breytinganna er að auka fjölbreytni og framboð af jurtaafurðum og hollum tilbúnum réttum sem má merkja með Skráargatinu.

Með því að auka hlutdeild jurtaafurða verður máltíðin „grænni“ og stigin skref í átt að aukinni sjálfbærni. Breytingarnar gefa aukinn sveigjanleika og möguleika á vöruþróun. Með nýju reglugerðinni er hægt að skipta út hluta af kornvörum fyrir grænmeti og belgjurtir í brauði og pasta. Að auki geta heilkorn, grænmeti og belgjurtir komið í stað hluta kjötsins í kjötvörum.

Skráargatið

Tími til að elda hollan mat er oft knappur í daglegu amstri og því hafa neytendur tekið fegins hendi ýmsum tilbúnum réttum. Reglur varðandi Skráargatsmerkingu tilbúinna rétta hafa hins vegar verið fremur flóknar og takmarkað möguleika á að nota merkið. Nýju reglurnar eru einfaldari og er vonast til að það muni leiða til aukins framboðs á hollum tilbúnum réttum með Skráargatsmerkinu.

Í nýju reglugerðinni er einnig gerð breyting á merkinu sjálfu þannig að táknið ®, sem táknar skrásett vörumerki, verður ekki lengur hluti af Skráargatsmerkinu. Hægt verður að merkja vörur með Skráargatinu ásamt tákninu ® fram til 1. september 2024 og mega þær vera á markaði þar til birgðir eru uppurnar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?