Fara í efni

Sníkjudýrið Tritrichomonas greindist í ketti

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Sníkjudýrið Tritrichomonas foetus greindist nýverið í fyrsta sinn á Íslandi, í sýni úr ketti. Sníkjudýrið getur valdið krónískum niðurgangi í köttum. Ólíklegt er að sú gerð sníkjudýrsins sem lifir í köttum geti valdið sýkingum í öðrum dýrum og það er almennt ekki talið hættulegt fólki.

Saursýni úr ketti með krónískan niðurgang var nýlega sent til rannsóknar á rannsóknarstofuna „Finn Pathologist“ í Bretlandi frá Gæludýraklíníkinni í Reykjavík. Í sýninu greindist meðal annars sníkjudýrið Tritrichomonas foetus sem er svipudýr, einfrumungur af ættbálki protozoa. Matvælastofnun hefur ekki áður borist tilkynning um greiningu á þessu sníkjudýri hér á landi. Sníkjudýrið er þekkt sem orsakavaldur að krónískum niðurgangi í köttum. Annað afbrigði af sníkjudýrinu sem ber sama heiti veldur fósturláti í kúm snemma á meðgöngu. Fósturlát af völdum T. foetus er tilkynningarskyldur smitsjúkdómur í nautgripum hér á landi, en hefur aldrei greinst. Sníkjudýrið í köttum er frábrugðið því sem finnst í kúm og ekki er talið að kettir beri smit í nautgripi.

Enn ein gerð af þessu sníkjudýri, sem kallast Tritrichomonas suis finnst í svínum, og þá gjarnan í nefholi eða meltingarvegi. Út frá rannsóknum á genamengi T. suis er það mun líkara T. foetus í nautgripum, en því afbrigði sem finnst í meltingarvegi katta. T. suis hefur aldrei greinst hér í landi.

Í örfáum tilvikum hefur Tritrichomonas foetus greinst í fólki erlendis og hefur þá verið um að ræða fólk með ónæmisbælingu af einhverjum orsökum.


Getum við bætt efni síðunnar?