Fara í efni

Smitandi lifrarbólga í hundum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 

Nokkuð hefur borið á smitandi lifrarbólgu í hundum að undanförnu. Landbúnaðarstofnun hefur kallað eftir upplýsingum frá dýralæknum um fjölda tilfella. Samkvæmt þeim hefur á þessu ári 61 hundur haft sjúkdómseinkenni sem benda sterklega til lifrarbólgu, af þeim hafa 15 dáið. Sjúkdómsgreining var staðfest með krufningu í 10 tilvikum. Ekki hafa allir dýralæknar svarað þannig að fjöldinn getur verið meiri. Sjúkdómurinn virðist einskorðast við suðvesturhorn landsins. 


Til að fylgjast með þróun sjúkdómsins hefur Landbúnaðarstofnun óskað eftir að dýralæknar tilkynni áfram um öll tilfelli og sendi vefjasýni til rannsóknar úr hundum sem deyja. Tilraunastöðin að Keldum og Landbúnaðarstofnun standa sameiginlega straum af kostnaði við rannsóknirnar.


Landbúnaðarstofnun ásamt Tilraunastöðinni að Keldum vinna einnig að því að fá gott bóluefni gegn sjúkdómnum.


Einkenni sjúkdómsins eru hiti, slappleiki, lystarleysi, þorsti, hornhimnubólga, rennsli úr augum og nefi, og stundum eymsli í kvið og uppköst. Einkennin eru oft óljós og geta átt við marga aðra sjúkdóma en mikilvægt er að hundaeigendur hafi fljótt samband við dýralækni ef hundar þeirra veikjast. Dánartíðni er hæst meðal ungra hunda. Smit berst með þvagi, saur og slefu. Hundar sem hafa sýkst geta smitað í meira en 6 mánuði eftir bata. 




Getum við bætt efni síðunnar?