Fara í efni

Smitandi barkabólga upprætt

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Við árlega skimun Matvælastofnunar árið 2012 greindust mótefni gegn smitandi barkabólgu í sýnum sem tekin voru úr nautgripum á búi á Austurlandi. Við nánari rannsókn kom í ljós að töluverður hluti gripanna á búinu var smitaður og jafnframt einn gripur sem fluttur hafði verið á annað bú. Sýni voru tekin úr öllum gripum á búunum tveimur og öllum gripum sem reyndust jákvæðir var slátrað. Sýnatökur hafa nú verið endurteknar í tvígang með sjö mánaða millibili og enginn gripur hefur greinst með smit. Matvælastofnun telur því allar líkur á að smitið hafi verið upprætt og hefur aflétt öllum kvöðum af búunum.

Matvælastofnun hefur átt gott samstarf við bændur á búunum tveimur vegna þessa máls, sem og við Landssamband kúabænda. Þegar smitið greindist í fyrra voru sýni tekin á öllum kúabúum á landinu en smitið greindist ekki á öðrum en búunum tveimur. Ekki hefur tekist að rekja hvaðan smitið hefur borist en þessi sjúkdómur er töluvert algengur í mörgum löndum í Evrópu og annars staðar í heiminum. Það er til mikils að vinna að halda landinu fríu frá þessum sjúkdómi þar sem hann getur valdið alvarlegum öndunarfæraeinkennum með tilheyrandi óþægindum fyrir dýrin og minnkun í afurðaframleiðslu og jafnframt getur smitið haft neikvæð áhrif á frjósemi gripanna og þar með fjárhagslegt tjón fyrir bændur. Helsta smitleið þessa sjúkdóms er með sýktum lifandi nautgripum og jafnframt getur smitefnið borist með menguðu sæði.  

Eins og áður mun Matvælastofnun taka sýni árlega á 80 bæjum á landinu, samkvæmt vöktunaráætlun. Bæirnir sem sýnin eru tekin á eru valdir með slembiúrtaki. Sýnin eru rannsökuð m.t.t. sjúkdóma sem geta leynst í dýrunum án þess að sjúkdómseinkenni komi fram og dýrin geta því verið frískir smitberar um langan tíma. Hvað smitandi barkabólgu varðar sem og aðra alvarlega dýrasjúkdóma eru dýraeigendur og aðrir sem umgangast dýr minntir á að hafa samband við héraðsdýralækna á umdæmisskrifstofum Matvælastofnunar án tafar verði þeir varir við grunsamleg einkenni.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?