Fara í efni

Skýlum dýrum okkar fyrir ofsaveðrinu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Vegna aðvörunar Veðurstofunnar um fárviðri seinni hluta dags vill Matvælastofnun benda öllum dýraeigendum á að huga að dýrum sínum í óveðrinu.

Dýr á útigangi skal koma í hús ef mögulegt er, eða að öðrum kosti í skjól eftir fremsta megni. Færa þarf dýr á örugg landsvæði ef einhver hætta er á að þau geti hrakist undan óveðrinu fram af klettum eða í ár, vötn, sjó eða aðra hættu. Gæta þarf sérstaklega að því að fjarlægja eða festa alla lausa hluti í kringum dýrin, því fljúgandi hlutir geta bæði valdið ofsahræðslu og beinum skaða.

Mjög varasamt er að flytja hestakerrur í miklu hvassviðri.

Kattaeigendur eru hvattir til að halda heimilisköttum inni þangað til óveðrið gengur yfir.

Um leið og veður lægir og talið er óhætt að vera á ferli eru dýraeigendur hvattir til að huga eins fljótt og auðið er að dýrum sínum.


Getum við bætt efni síðunnar?