Fara í efni

Skráning á ræktun matjurta

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ræktendur matjurta í atvinnuskyni eiga skv. matvælalögum að skrá starfsemi sína hjá Matvælastofnun. Stofnunin hvetur ræktendur matjurta til að skrá starfsemi sína eigi síðar en 15. janúar 2014 í gegnum þjónustugátt stofnunarinnar. Matvælastofnun heldur skrá um ræktendur matjurta. Einnig skal tilkynna breytingar á starfseminni til stofnunarinnar s.s. ræktun óskyldra tegunda og stöðvun starfsemi.

Tíðni eftirlits verður ákvörðuð með áhættumati sem byggir á magni, tegund matjurta og starfsemi. Samhliða skráningunni fer fram söfnun upplýsinga sem notaðar verða við slíkt áhættumat.

Hollustuhættir

Með matjurtarækt er átt við ræktun matjurta hvort sem það er útiræktun, inniræktun eða ræktun á korni til manneldis og telst slík ræktun til frumframleiðslu.

Allir þeir sem stunda matjurtarækt þurfa að kynna sér almenn ákvæði um hollustuhætti við frumframleiðslu og tengda starfsemi sem sett eru fram í I. viðauka reglugerðar EB nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli en sú reglugerð var innleidd  með reglugerð 103/2010. 

Almenn ákvæði um hollustuhætti og kröfur um varnir gegn hvers konar mengun frumframleiðsluvara eru settar fram í 2. og 3. tölulið undir II. lið A- hluta viðaukans.  Undir 5. tölulið  eru settar fram kröfur til þeirra sem framleiða eða skera upp plöntuafurðir.

Ræktendur matjurta skulu eftir því sem við á gera eftirfarandi ráðstafanir sbr 5. tölulið í I. viðauka 852/2004:

 1. Halda skal aðstöðu, búnaði og flutningstækjum hreinum
 2. Tryggja að plöntuafurðir séu hreinar og framleiðsla þeirra fari fram við hollustusamleg skilyrði
 3. Nota neysluvatn eða annað hreint vatn til að fyrirbyggja mengun afurða
 4. Sjá til þess að starfsfólk fái fræðslu um hættur og að starfsfólk sé heilbrigt 
 5. Hindra mengun afurða af völdum húsdýra og meindýra 
 6. Koma í veg fyrir mengun af völdum úrgangs og hættulegra efna. 
 7. Taka tillit til rannsóknaniðurstaðna sem varða matvælaöryggi, þ.e bregðast við niðurstöðum með úrbótum og eða stöðvun dreifingar /innköllun eftir því sem ástæða er til.  
 8. Nota plöntuvarnarefni s.s. illgresiseyði og skordýraeitur á ábyrgan hátt 

Ræktendur matjurta skulu skrá sbr. 7. og 9. tölulið í I. viðauka 852/2004:

 • Alla notkun plöntuvarnarefna og sæfiefna
 • Öll tilvik sjúkdóma eða skaðvalda sem geta haft áhrif á matvælaöryggi
 • Allar niðurstöður rannsókna 

Rekjanleiki

Ræktendur skulu tryggja rekjanleika sbr. grein 13 a í lögum um matvæli. Þeir skulu geta tilgreint þá aðila sem þeir hafa fengið aðföng frá s.s. útsæði, ungplöntur, fræ og plöntuvarnarefni. Einnig skulu þeir geta tilgreint kaupendur afurða og þannig tryggja rekjanleika í báðar áttir en slíkt er nauðsynlegt til að geta brugðist við frávikum  s.s stöðva dreifingu afurða ef þörf er á.

Frétt uppfærð 08.01.13


Getum við bætt efni síðunnar?