Fara í efni

Skortur á dýralyfjum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Að undanförnu hefur borið á skorti á dýralyfjum í landinu.  Ástandið hefur verið sérstaklega slæmt varðandi sýklalyf og hafa komið tímabil þar sem sýklalyf til notkunar handa dýrum hafa verið af mjög skornum skammti.  Einnig hefur borið á skorti á öðrum lyfjum, t.d. sauðfjárbóluefninu Tribovax sem var ófáanlegt á versta tíma nú í vor.  Áður hefur borið á skorti á dýralyfjum í landinu og því um þekkt vandamál að ræða sem kemur illa niður á heilbrigði og velferð dýra auk þess sem það veldur bændum  búsifjum. Eins og gefur að skilja eru bændur og dýralæknar áhyggjufullir vegna þessa ástands og spyrja hvað veldur.

Matvælastofnun hefur fengið nokkrar fyrirspurnir varðandi málið og hafa fyrirspyrjendur jafnvel talið að ástæða skorts á dýralyfjum nú, megi rekja til herts eftirlits Matvælastofnunar með ávísunum dýralækna á sýklalyf til sauðfjárbænda. Rétt er að Matvælastofnun hefur hert eftirlit með notkun sýklalyfja í dýr en það hefur ekki haft áhrif á framboð á dýralyfum í landinu. Skýringar á lyfjaskortinum nú eru nokkrar, en þessar eru helstar:

  • Erlendis er skortur á virkum efnum í dýralyf, verksmiðjur sem framleiða virku efnin hafa glímt við erfiðleika í framleiðslunni og því hafa þær ekki getað afhent virku efnin til lyfjaframleiðenda.
  • Tribovax bóluefnið og önnur sambærileg bóluefni hefur skort víða í Evrópu á þessu ári.  Við bættist hér á landi að stór sending af Tribovax fór forgörðum nú í vor vegna mistaka við hitastýringu sendingarinnar til landsins, sendingunni var fargað því gæði bóluefnisins var ekki tryggt.  Þegar önnur pöntun fór til framleiðenda erlendis reyndist erfitt að fá meira af bóluefninu vegna vandamála við framleiðslu.

Lyfjaskortur er ekki sér íslenskt vandamál heldur alþjóðlegt, í því sambandi er vísað í ársskýrslu Lyfjastofnunar 2014.  Á bls. 15-16 í skýrslunni er góð samantekt á margvíslegum skýringum þess að lyfjaskortur getur komið upp.  Lyfjastofnun hefur beitt sér fyrir að fjölga markaðsettum (skráðum) dýralyfjum á Íslandi m.a. til að reyna að minnka hættu á lyfjaskorti hér á landi.

Ítarefni:


Getum við bætt efni síðunnar?