Skoðanir fiskiskipa
Samkvæmt íslenskum lögum skulu öll matvælafyrirtæki, allt frá frumframleiðslu til sölu til neytenda, hafa starfsleyfi til starfsemi sinnar. Þessi starfsleyfi eru ýmist gefin út af Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga eða Matvælastofnun. Starfsleyfi skal ávallt byggja á úttektum.
Fiskiskip teljast til matvælafyrirtækja og eru því skoðunarskyld. Matvælastofnun mun hefja skoðanir á fiskiskipum nú í júlí. Skoðuð verða öll fiskiskip sem hafa leyfi til fiskveiða. Samtals eru þetta ríflega 1500 bátar og skip.
Gert er ráð fyrir að það geti tekið allt að þremur árum að ljúka fyrstu umferð í stærsta hópnum, sem eru bátar undir 15 BT. Starfsmenn Matvælastofnunar munu annast eftirlitið og verður það framkvæmt í samráði við útgerðaraðila. Til grundvallar eftirlitinu er „Skoðunarhandbók um matvæli úr dýraríkinu“, sem er aðgengileg á vefsíðu Matvælastofnunar www.mast.is.
Bátaskoðanir byggja á ákvæðum í lögum og reglugerðum:
- Lög um matvæli nr. 93/1995 (9. grein).
- Lög um sjávarafurðir nr. 55/1998 (14. grein , sjá einnig 15. greinina).
Sérstakar kröfulýsingar:
- Reglugerð nr. 104/2010 (EU reglugerð nr. 853/2004 Viðauki III, þáttur VIII)
- Breyting á reglugerð nr. 104/2010 var gerð með reglugerð um kælingu nr. 528/2012.