Fara í efni

Skimun á salmonellu og kampýlóbakter í alifuglakjöti

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nú stendur yfir skimun á örverum í kjöti á markaði sbr. frétt Matvælastofnunar þann 03.07.2018. Hér verður fjallað nánar um skimun á salmonellu og kampýlóbakter í alifuglakjöti á markaði hérlendis. Hvorki salmonella né kampýlóbakter hafa greinst í kjúklingasýnum fram að þessu.

Forvarnir eru mikilvægar til að koma í veg fyrir að eldisfuglar smitist af salmonellu og kampýlobakter. Tekin eru sýni í eldi og við slátrun til að kanna hvort þeir hafa smitast svo hægt sé að grípa til aðgerða í tæka tíð og koma í veg fyrir að menguðu kjöt verði dreift til neytenda.

Ýmsum aðgerðum er beitt til að draga úr hættu á kampýlóbaktersýkingum. Sýni úr eldishópum alifugla eru tekin 5 dögum fyrir slátrun. Greinist kampýlobakter í sýnunum þarf að frysta eða hita afurðir áður en þær fara á markað.  Við hitun drepast bakteríurnar, en með frystingu fækkar þeim verulega hafi þær á annað borð verið til staðar. Magn kampýlóbaktersýkla í kjöti skiptir máli þegar horft er til sýkingarhættu fyrir fólk, en hún eykst með auknum fjölda baktería í kjötinu.

Yfir sumarmánuðina er mest hætta á að alifuglar smitist af kampýlóbakter. Því eru tekin sýni úr hópunum við slátrun frá apríl til október. Greinist kampýlóbakter í slátursýni er frekari dreifing afurða frá sláturhúsinu stöðvuð. Ekki er gripið til innköllunar þó að kampýlobakter greinist í slátursýni, þar sem rannsóknir hafa sýnt að fjöldi baktería er minni í kjöti úr eldishópum sem smitast rétt fyrir slátrun, heldur en í alifuglum sem smitast snemma í eldinu.

Öflugt eftirlit er með salmonellu smiti í alifuglum, bæði í eldi og við slátrun. Sýni til greininga á salmonellu eru tekin í eldishúsum kjúklinga og kalkúna 2-3 vikum fyrir slátrun. Greinist salmonella í eldishópi skal honum fargað. Einnig eru tekin sýni til greiningar á salmonellu við slátrun. Ef salmonella greinist við slátrun skal dreifing afurða stöðvuð og ef afurðir eru komnar á markað skulu þær teknar af markaði og innkallaðar frá neytendum. 

Mikill árangur hefur náðst í baráttu við salmonellu frá síðustu aldamótum. Á árunum 2005-2007 greindist engin salmonella í alifuglum og lengi tókst að halda tíðni smits um eða undir 1%. Árið 2010 jókst tíðni salmonellu talsvert í kjúklingaeldi, en þá þurfti að innkalla 3,6% sláturhópa vegna þess að salmonella greindist í þeim. Síðan þá hefur dregið úr tíðninni og var 0,1% sláturhópa innkallaður árið 2017.

Í dag er krafist vottorða um sýnatöku vegna salmonellu með erlendu kjöti og gerð krafa um að það hafi verið fryst í 30 daga.

 

Skimunin er gerð til að kanna árangur forvarna gegn salmonellu og kampýlóbakter í alifuglakjöti og kanna ástand afurða þegar neytandinn fær þær í hendur í verslunum, hvort heldur sem afurðirnar eru af innlendum eða erlendum uppruna. 

Fram að þessu hafa verið tekin 45 sýni af ófrosnu alifuglakjöti og voru þau öll af innlendu kjöti. Erlent alifuglakjöt er selt frosið. Öll sýnin voru af kjúklingakjöti og greindist hvorki salmonella né kampýlóbakter í sýnunum. Það bendir til þess að forvarnir og eftirlit skili árangri í eldi og við slátrun alifugla.

Ítarefni

Landsáætlun um varnir og viðbrögð við Salmonellu í alifuglum

Landsáætlun um varnir og viðbrögð við kampýlóbakter í alifuglum

Efirlit  með salmonellu í alifuglarækt


Getum við bætt efni síðunnar?