Fara í efni

Skimun á salmonellu í svínakjöti

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nú stendur yfir skimun á  örverum í kjöti á markaði sbr. frétt Matvælastofnunar þann 03.07.2018. Fyrstu niðurstöður benda til þess að salmonellu sé ekki að finna í svínakjöti. Hér verður fjallað nánar um skimun á salmonellu í svínakjöti á markaði.


Miklar forvarnir eru viðhafðar hérlendis við eldi og slátrun svína til að koma í veg fyrir að afurðir svínakjöts fari á markað sem síðar meir geta sýkt neytendur af salmonellu. Tekin eru sýni við slátrun til að fylgjast með ástandi afurða og sannreyna fyrirbyggjandi aðgerðir gegn mengun við slátrun. Tíðni salmonellumengunar við slátrun svína hefur verið lág undanfarin ár, ef undanskilin er snögg aukning á árinu 2009 (11,2%). Síðan þá hefur tíðnin haldist lág og var 0,5% árið 2017.

Í dag er krafist vottorða um sýnatöku vegna salmonellu með erlendu kjöti og gerð krafa um að það hafi verið fryst í 30 daga.

Skimunin er gerð til að kanna árangur þessara forvarna við eldi, slátrun og flutning á svínakjöti til landsins. Kannað er ástand svínakjöts af innlendum eða erlendum uppruna, þegar neytandinn fær það í hendur í verslunum.

Tekin hafa verið 45 sýni og þar af voru 3 af erlendum uppruna.  Salmonella hefur ekki greinst í sýnunum.  Það bendir til þess að forvarnir í eldi og við slátrun svína skili árangri. 


Ítarefni:


Frétt um skimun á sjúkdómsvaldandi örverum í kjöti á markaði

Eftirlit með salmonellu í svínarækt.


Getum við bætt efni síðunnar?