Fara í efni

Sigurborg Daðadóttir skipuð yfirdýralæknir

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hefur skipað Sigurborgu Daðadóttir í starf yfirdýralæknis. Yfirdýralæknir er forstöðumaður dýraheilbrigðis- og dýravelferðarsviðs Matvælastofnunar og ber því ábyrgð á mikilvægum málaflokkum í störfum sínum og er jafnframt staðgengill forstjóra stofnunarinnar. 

Sigurborg er dýralæknir frá Tieräztlich Hochschule í Hannover og hefur auk þess lokið námi í rekstrar- og viðskiptafræði frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Sigurborg hefur starfað hjá Matvælastofnun frá árinu 2008 sem gæðastjóri og forstöðumaður áhættumats- og gæðastjórnunarsviðs. Hún hefur góða reynslu af opinberri stjórnsýslu og þekkingu á löggjöf og eftirliti á sviði matvælaöryggis og dýraheilbrigðis. Sigurborg hefur einnig sinnt verkefnum vegna dýravelferðar, en Matvælastofnun hefur nú tekið yfir eftirlit með framkvæmd allra dýraverndarmála, eftir verkefnaflutning frá Umhverfisstofnun á grundvelli laga sem tóku gildi nú um áramótin.

Þess má geta að Sigurborg Daðadóttir er fyrsta konan sem er skipuð yfirdýralæknir. Fyrst var skipað í starf yfirdýralæknis árið 1943 og hafa fjórir dýralæknar gegnt starfinu frá þeim tíma. Halldór Runólfsson sem var yfirdýralæknir frá 1997 til 2012 hefur verið skipaður skrifstofustjóri afurðaskrifstofu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og hóf þar störf í byrjun þessa árs. Sigurður Örn Hansson er nú settur yfirdýralæknir þar til Sigurborg tekur til starfa.


Getum við bætt efni síðunnar?