Fara í efni

Sendinefnd skoðar íslenska framleiðslu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun tekur á móti sendinefnd frá Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Kasakstan í dag. Erindi sendinefndarinnar er að framkvæma úttekt á fisk-, kjöt- og mjólkurframleiðslu hérlendis til að íslenskir útflytjendur fái leyfi til að flytja vörur sínar til Tollabandalags Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan.

Tíu úttektarmenn frá Tollabandalaginu munu á næstu tveimur vikum heimsækja íslensk fiskvinnslufyrirtæki, sláturhús, mjólkurstöðvar, fiskeldisstöðvar, svínabú og sauðfjárbú. Einnig mun hópurinn heimsækja rannsóknastofur og skoða framkvæmd við útgáfu heilbrigðisvottorða hjá Matvælastofnun. Upphafsfundur verður hjá Matvælastofnun á Selfossi þriðjudaginn 11. nóvember en síðan skiptist sendinefndin í tvo hópa. Annar hópurinn heimsækir fiskeldis- og fiskvinnslufyrirtæki og hinn frumframleiðslu, sláturhús og mjólkurstöðvar. Endanleg áætlun um hvaða fyrirtæki verða heimsótt mun liggja fyrir að loknum opnunarfundi Matvælastofnunar og sendinefndar Tollabandalagsins.

Matvælastofnun hefur í nokkurn tíma unnið að undirbúningi þessarar úttektar í samvinnu við systurstofnun sína í Rússlandi. Fjöldi íslenskra matvælafyrirtækja hefur að undanförnu óskað eftir leyfi til útflutnings inn á markað Tollabandalagsins, en útflutningsleyfið er háð niðurstöðu úttektar sendinefndarinnar. Fjölmörg önnur fyrirtæki hafa þegar leyfi til útflutnings á þennan markað og munu sum þeirra einnig fá skoðun af hálfu sendinefndarinnar. Úttektinni lýkur með lokafundi milli aðila föstudaginn 21. nóvember n.k. og er mikilvægt að niðurstöður hennar verði góðar fyrir íslensk matvælafyrirtæki vegna þeirra miklu hagsmuna sem felast í útflutningi öruggra afurða á markaði um allan heim.


Getum við bætt efni síðunnar?