Fara í efni

Rannsókn á sýklalyfjaónæmi í gæludýrum á Íslandi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum munu kanna algengi sýklalyfjaþolinna E. coli (ESBL/AmpC myndandi E.coli) í gæludýrum sem flutt eru til landsins. Um er að ræða E. coli bakteríur sem bera með sér gen sem hafa þann eiginleika að mynda ónæmi gegn mikilvægum sýklalyfjum. Bakteríur sem bera þessi gen eru líklegri til að vera fjölónæmar. Þetta verkefni er hluti af meistarverkefni við Dýralæknaháskólann í Kaupmannahöfn þar sem verið er að kanna algengi ESBL/AmpC myndandi E. coli í gæludýrum á Íslandi. Rannsakað verður algengi ESBL/AmpC myndandi E. coli í saursýnum úr hundum og köttum og næmi þessara stofna fyrir öðrum sýklalyfjum verður kannað.

Í samvinnu við dýralækna á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum var sýnum úr hundum og köttum safnað. Auk þess eru notuð saursýni úr hundum og köttum sem nú dvelja á einangrunarstöð vegna innflutnings til landsins. Geta skal þess að niðurstöður úr sýnum dýranna sem eru í einangrun hafa engin áhrif á innflutningleyfi þeirra.

Sýklalyfjaónæmi er ein stærsta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, Sameinuðu Þjóðirnar og Evrópusambandið hafa hvatt aðildarþjóðir sínar til að efla rannsóknir sem nýta mætti til að stemma stigu við þessari ógn. Aukið ónæmi baktería fyrir sýklalyfjum veldur vandamálum við meðferð sýkinga og hefur þar af leiðandi slæmar afleiðingar fyrir heilsu manna og dýra og veldur auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Sýklalyfjaónæmar bakteríur og ónæmisgen geta borist milli manna og dýra t.d. með snertingu við saur, í gegnum umhverfið og í gegnum matvæli. Því miður skortir þekkingu á hversu miklu leyti sýklalyfjaónæmi í mönnum kemur frá dýrum og umhverfi. Gæludýr eru iðulega í mikilli snertingu við eigendur sína og því líklegt að bakteríur berist þeirra á milli.

Viðfangsefni verkefnisins er algengi sýklalyfjaþolinna saurgerla (E. coli) í þarmaflóru heilbrigðra gæludýra á Íslandi. Saurgerlar eru náttúrulegur hluti heilbrigðrar þarmaflóru í mönnum og dýrum en sýklalyfjaþolnir stofnar geta verið til staðar í heilbrigðum einstaklingum. Þessir stofnar geta komið til vegna utanaðkomandi smits frá umhverfi eða öðrum dýrum, jafnvel frá mönnum, eða sökum ónæmismyndunar vegna sýklalyfjanotkunar. Tilvist þessara stofna í þörmum er í sjálfu sér skaðlaus, en vandamál vegna þeirra í meðferð sýkinga (t.d. þvagfærasýkinga og blóðeitrana) hefur færst í aukana. 


Getum við bætt efni síðunnar?