Rannsókn á Listeriu monocytogenes í reyktum og gröfnum fiski
Frétt -
20.04.2011
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Listeria monocytogenes (LM) getur valdið sjúkdómum í dýrum og fólki. Sjúkdómurinn er þó fremur sjaldgæfur í dýrum og fólki hér á landi en tíðni hans fer hækkandi í fólki víða erlendis. Það eru fyrst og fremst barnshafandi konur og einstaklingar með veiklað ónæmiskerfi sem eru í hættu. Á vef Landlæknis, má fræðast nánar um sýkingar í fólki, sjá hér.
Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á tilvist Listeria monocytogenes (LM) í matvælum og matvælavinnslum hér á landi. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Umhverfisstofnun, Matís og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna hafa fram að þessu framkvæmt flestar rannsóknirnar. Þessar rannsóknir hafa m.a. sýnt fram á listeríu í hráefnum matvæla, vinnsluumhverfi og lokaafurðum. Tíðni LM í hráefni getur verið há en er yfirleitt lægri í lokaafurðum. Sjá dæmi um LM í matvælavinnslu á mynd. 1. | |
|
Mynd 1. Tíðni Listeriu monocytogenes í matvælavinnslu
Í reglugerð Framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2073/2005 sem tekið hefur gildi hér á landi er kveðið á um hámarksgildi LM í matvælum. Í ljósi þessarar reglugerðar og tilskipunar nr. 2003/99/EC (sem tekur gildi 1. nóvember 2011) ákvað Matvælastofnun að kanna tilvist LM í reyktum og gröfnum fiski sem boðinn er til sölu í verslunum hér á landi á síðasta neysludegi vörunnar. Úttektin var skipulögð í samvinnu við Matís ohf og viðkomandi heilbrigðiseftirlit. Matís ohf sér um ræktun úr sýnunum en Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra taka sýnin. Sýnatökur hófust í desember á s.l. ári og hafa borist niðurstöður úr 40 sýnum. Sýnatökum mun ljúka í desember á þessu ári. Tvö sýni hafa reynst yfir viðmiðunarmörkum fram að þessu. Viðkomandi fyrirtæki innkallaði strax vöruna þegar niðurstöður lágu fyrir. Þegar sýnatökum og rannsóknum lýkur mun skýrsla gerð um úttektina og hún birt á heimasíðu stofnunarinnar.