Fara í efni

Rannsókn á listeríu í matvælum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun rannsakaði listeríu í matvælum á síðasta ári. Tekin voru 32 sýni frá 16 framleiðendum, m.a. af kjötáleggi og reyktum og gröfnum lax. Ekki greindist listería í matvælunum. Þó svo að listeríusýkingar séu fremur fátíðar hér á landi hefur verið stöðug aukning á sjúkdómstilfellum af völdum bakteríunnar í Evrópu síðastliðin 5 ár. Full ástæða er til að vera áfram á varðbergi og munu opinberir eftirlitsaðilar á næstunni beina sérstaklega sjónum að sýnatökum framleiðenda úr matvælum tilbúnum til neyslu og framleiðsluumhverfi þeirra með það að markmiði að sannreyna að þeir uppfylli reglur um örverufræðileg viðmið fyrir matvæli

Í desember tóku starfsmenn Matvælastofnunar sýni af niðurskornum kjötvörum tilbúnum til neyslu, reyktum fiski og gröfnum fiski. Tilgangurinn var að sannprófa að matvælaöryggisviðmið hvað varðar listeríu (Listeria monocytogenes) í reglugerð 135/2010 (EB/2073/2005) væru uppfyllt í þeim sýnum sem tekin voru. Tekin voru sýni úr 32 framleiðslulotum frá 16 framleiðendum. Listería greindist ekki í sýnunum.

Matvælaframleiðendum ber skv. ofangreindri reglugerð að vakta listeríu í framleiðsluumhverfi og afurðum þar sem bakterían getur fjölgað sér. Opinberir eftirlitsaðilar munu á næstunni beina sérstaklega sjónum að sýnatökum framleiðenda og skoða sýnatökur þeirra úr framleiðsluumhverfi og matvælum tilbúnum til neyslu. Framleiðendur matvæla sem eru tilbúin til neyslu eru hvattir til að kynna sér leiðbeiningar Matvælastofnunar um sýnatökur sem nálgast má í ítarefninu hér að neðan.

Listería (Listeria monocytogenes) getur valdið sjúkdómum í dýrum og fólki. Sýkingin er fremur sjaldgæf í fólki hér á landi. Í Evrópu hefur sést stöðug aukning sjúkdómstilfella af völdum listeríu síðastliðin 5 ár en tilfellin eru þó undir 2000 á ári. Á milli áranna 2012 og 2013 jukust sýkingar um 8,6%. Síðastliðið sumar bárust fréttir frá Danmörku um 16 dauðsföll af völdum bakteríunnar sem rekja mátti til fyrirtækis sem framleiddi rúllupylsur. Hér á landi greindust 4 einstaklingar með listeríu á síðasta ári.  Sami fjöldi greindist 2011 og 2007 en önnur ár voru tilfellin 0-1 á ári. Nánari upplýsingar um sýkingar í fólki er að finna á vef Embættis landlæknis.

Listería er baktería sem er til staðar í náttúrunni, meðal villtra dýra, plantna og í jarðvegi. Listería getur fjölgað sér í kælivörum, einkum ef lítið súrefni er til staðar. Bakterían getur því fjölgað sér í flutningum, geymslu, í smásölu og hjá neytendum. Ef hún er til staðar í matvælum og aðstæður henni hagstæðar getur hún orðið hættuleg neytendum, einkum þeim sem eru veikir fyrir s.s. öldruðum, barnshafandi konum, ungum börnum og fólki með skert ónæmiskerfi.  Mest hætta er á listeríu í matvælum með langt geymsluþol og þar sem vaxtarskilyrði fyrir bakteríuna eru góð. Sem dæmi má nefna matvæli eins og reyktan og grafinn fisk, niðursneitt kjötálegg í lofttæmdum eða loftskiptum umbúðum og mjúkosta. Það er því mikilvægt að framleiðendur tilbúinna matvæla beiti ráðstöfunum sem koma í veg fyrir að bakterían berist í matvæli.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?