Fara í efni

Örugg matvæli um jólin

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Það er hefð fyrir því að íslendingar geri vel við sig í mat og drykk um jól og áramót.  Mikið er keypt inn af girnilegum matvælum sem tilreidd eru í eldhúsum heimilanna fyrir jól og yfir hátíðar. Mikilvægt er að huga vel að réttri meðferð matvæla, svo komast megi hjá því að sjúkdómsvaldandi örverur spilli jólagleðinni. Hér kom nokkur góð ráð til að tryggja örugg matvæli um jólin. Eftir innkaup skal koma kælivörum sem fyrst fyrir í ískápnum. Mikilvægt er að geyma hrátt kjöt þannig að safi úr kjötinu leki ekki yfir í tilbúin matvæli. Athugið hvort umbúðir eru heilar eða setjið hráa matvöru í ílát og tryggið þannig að hún snerti ekki önnur matvæli sem eru tilbúinn til neyslu. Til að tryggja kælingu í ísskápnum þarf að gæta þess að nægilegt loftstreymi sé til staðar og að hitastig sé  0- 4 °C.  Kæling  kemur í veg fyrir fjölgun flestra sjúkdóms-valdandi örvera og  hægir á vexti skemmdarörvera.

Hendur koma víða við og er hætta á að þær geti borið með sér smit í matinn, því er mikilvægt að þvo hendur áður en matreiðsla hefst og á milli vinnslu mismunandi rétta.

Gætið þess að nota hrein áhöld og skurðarbretti og þvoið áhöld og vinnuborð strax eftir meðhöndlun á hráu kjöti og fiski. 

Gegnumsteikið fuglakjöt, svínakjöt, og rétti með hökkuðu kjöti og hakkaðri lifur. Kælið fljótt ef geyma á rétti eða bera þá fram kalda. Kæling í vatnsbaði með klaka er árangursrík áður en réttum er komið fyrir í ísskápnum t.d. ef hangikjöt á að kólna í soðinu. Ef halda á matvælum heitum skal hitastig ekki fara niður fyrir 60 °C.  Standi matur lengi við 30 – 40 °C  er hætta á mikilli fjölgun sjúkdómsvaldandi örvera.

Gott er að takmarka þann tíma sem réttir standa á veisluborðinu, þar sem hitastigsveiflur stytta geymsluþol matvæla. Reynið að áætla það magn sem neytt verður og takið hæfilega skammta út úr ísskápnum. Pakkið afgöngum heitra og kaldra rétta inn og komið þeim fyrir í ísskápnum strax að lokinni máltíð. 


Getum við bætt efni síðunnar?