Fara í efni

Ólöglegar geldingar leikmanna

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ný lög um velferð dýra taka af öll tvímæli um það að dýralæknum einum er heimilt að gelda dýr, gildir einu um hvaða dýrategund er að ræða. Nýju lögin taka einnig af öll tvímæli um að við sársaukafullar aðgerðir skuli ávallt deyfa eða svæfa dýr, aðeins er gefin ein undantekning frá þeirri reglu en það er að eyrnamarka má lömb og kiðlinga innan við viku gamla án deyfingar. Ekki svo að skilja að lömb og kiðlingar finni minna til heldur er þessi undanþága  sett af praktískum ástæðum.

Þrátt fyrir að gömlu lögin segðu að aðeins dýralæknar mættu gelda viðgekkst það að bændur geltu sjálfir svín, kálfa og lömb og það án deyfingar. Gömlu lögin voru ekki eins afdráttarlaus varðandi aðgerðir og þau nýju. Aldrei var látið á það reyna fyrir dómstólum að stoppa  geldingar leikmanna, dýralæknar bentu þó ítrekað á að þetta væri alls ólíðandi gagnvart dýrunum og töldu geldingar leikmanna án deyfingar brot á lögunum. Það bætir ekki líðan dýra sem eru á lífi í dag að ræða um það sem var, við skulum frekar horfa fram á veginn.

Þörf fyrir geldingar

Nú er það mat hvers og eins dýraeiganda hvort hann telji nauðsynlegt fyrir sinn búskap að gelda karldýr, á þetta aðallega við um grísi, kálfa og lömb. Þörf fyrir að gelda karldýr er mismikil, einna síst er þörfin við eldi nautgripa en þó eru nautkálfar geltir sumstaðar til að forðast slagsmál í hópnum. Grísir og lömb eru hins vegar yfirleitt geld til að forðast tiltekna lykt og bragð af kjöti kynþroska karldýra. Hrútslömbum er yfirleitt slátrað fyrir kynþroskaaldur og því er geldinga ekki þörf á haustin. Sauðfjárbændur þurfa  hins vegar að fækka hrútum eftir fengitíð auk þess sem einhver hrútslömb eru sett á að hausti vegna smæðar og því nauðsynlegt að gelda einhverja gripi ætli bændur að slátra þeim t.d. snemma að vori. Nautgripa- og sauðfjárbændur þurfa því að gera sér grein fyrir aða þeim er óheimilt að gelda kálfa og hrúta sína, á það einnig við geldingar með Burdizzo geldingatöngum sem því miður hafa verið seldar í stórum stíl til bænda undanfarin ár.

Geldingar grísa eru að sama skapi ólöglegar nema dýralæknir framkvæmi verkið undir deyfingu eða svæfingu. Svínabændur þurfa því að gera upp við sig hvort þeir sleppi geldingum og slátri grísunum fyrir kynþroskaaldur, fái dýralækna til að gelda eða  bólusetji gegn myndun lyktarinnar. Bólusetning er vænlegasti kosturinn fyrir grísina. Bólusetningar hafa verið stundaðar í áraraðir í Ástralíu og Nýja-Sjálandi en Evrópulönd eru tregari að hefja bólusetningar. Það helsta sem mælir gegn bólusetningum er kostnaður, sem þó ætti ekki að vera meiri en sem nemur kostnaði við geldingu dýralækna með deyfingu og verkjastillingu, en allt telur auðvitað. Sýnt hefur þó verið fram á að bólusetningin auki fóðurnýtingu grísanna og vegur það upp á móti kostnaði. Neytendur verða þó að gera sér grein fyrir að allur kostnaður sem til fellur við eldið kemur fram í verði kjötsins, það er tvískinnungur að vilja betri meðferð dýra en vera svo ekki reiðubúin að borga fyrir velferð þeirra þegar varan er keypt út í búð.

Viðbrögð við ólöglegum geldingum

Nýju lögin eru skýrari en eldri lög og á það ekki síst við um ákvæði sem fjalla um viðbrögð við brotum á lögunum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Matvælastofnun eru færð ýmis úrræði til að krefja dýraeigendur um úrbætur til að stuðla að góðri meðferð á dýrum. Matvælastofnun vinnur nú að átaki eftirlits í sláturhúsum þannig að karldýr verða sérstaklega skoðuð m.t.t. til geldinga. Sé karldýr gelt mun stofnunin kalla eftir staðfestingu hjá eiganda um að dýrið hafi verið gelt af dýralækni. Ef eiganda tekst ekki að færa sönnur á að dýralæknir hafi gelt dýrið mun stofnunin beita þeim úrræðum sem hún hefur lögum samkvæmt, s.s. gera kröfur um úrbætur og auka eftirlit á viðkomandi búi.

Stofnuninni eru einnig færð tæki til að refsa fyrir að brjóta lögin, þ.e. stofnunin getur lagt stjórnvaldssektir á dýraeigendur. Sektir geta numið frá kr. 10.000,- upp í kr. 1.000.000,-. Slíkt vald er vandmeðfarið og mun stofnunin gæta hófs í anda meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og beita vægari úrræðum fyrst um sinn meðan bændur eru upplýstir um breytt verklag. Ekki verður þó við það unað lengi að dýr séu gelt af leikmönnum án deyfingar, refsingum mun um síðir verða beitt.


Getum við bætt efni síðunnar?