Fara í efni

Óhapp við flutning hræja til brennslu vegna riðu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í gær kom upp atvik við flutning á riðusmituðum úrgangi sem flytja átti til brennslu í Kölku á Suðurnesjum. Mikill þrýstingur af völdum gasmyndunar úr úrganginum myndaðist í einum gámnum á meðan á flutningi stóð. Þetta varð til þess að hleri á ofanverðum gámnum gaf sig og uppgötvaðist atvikið áður en komið var að Hvalfjarðargöngum.

Stöðvað var tvisvar á leiðinni áður en atvikið átti sér stað til að kanna ástand gáma sem var í lagi. Ekki var meira magn af hræjum í gámnum en tíðkast við flutning á riðusmituðum úrgangi. 

Atvikið var strax tilkynnt til Matvælastofnunar sem ákvað að stöðva flutning. Í kjölfarið var ástand gámanna kannað á gámaþjónustusvæði á Akranesi og hluta farmsins umhlaðið í annan gám áður en flutningur hófst að nýju. Við umhleðslu heltist niður blóð og annar vökvi úr farminum.  

Þrif og sótthreinsun svæðisins á Akranesi þar sem umhleðsla átti sér stað er lokið. Jarðvegsskipti munu fara fram í þeim tilgangi að fjarlægja smitefnið eins og kostur er. Svæðið verður í framhaldinu girt af í varúðarskyni til að fyrirbyggja smit í sauðfé. 

Matvælastofnun
Heilbrigðiseftirlit Vesturlands


Getum við bætt efni síðunnar?