Fara í efni

Of mikill kanill getur skaðað heilsu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Margir neyta kanils reglulega, t.d. með hafragrautnum, en aldrei er neysla á kanil meiri en á jólunum. Hins vegar vita fáir að kanill getur verið heilsuspillandi í miklu magni, einkum fyrir börn. Þetta er vegna þess að kanill inniheldur af náttúrunnar hendi mismikið af bragðefninu kúmarín sem hefur verið tengt við lifrarskaða ef neytt í háum skömmtum.

Kanill er krydd sem notað hefur verið við matargerð í þúsundir ára. Hann er unnin úr berki trjáa af ættkvíslinni Cinnamonum í Austurlöndum fjær og í eyjum í Indlandshafi, einkum Indónesíu. Kanill hefur verið  tengdur við jákvæð heilsuáhrif s.s. bættan sykurbúskap og hefur m.a. verið notaður í meðferð við sykursýki. Vinsældir kanils hafa leitt til þess að neysla hefur í sumum tilfellum aukist og er ákveðinn hópur neytenda sem blandar kanil reglulega í matinn sinn sér til heilsubótar. Notkun kanils er þó aldrei meiri en yfir jólahátíðarnar. Þá er hann notaður í bakstri, út á hrísgrjónagrautinn og víðar. Þó svo að kanill hafi verið tengdur við ýmis jákvæð heilsuáhrif ber að forðast að borða of mikið af honum þar sem í honum er einnig að finna efni sem hefur heilsuspillandi áhrif í háum skömmtum.

Í kanil finnst náttúrulega efnið kúmarín sem tengt hefur verið við lifrarskaða í háum skömmtum. Magn kúmaríns í kanil er mjög misjafnt eftir uppruna og gera þarf greinamun á s.k. cassia kanil sem inniheldur mikið af kúmerín og Ceylon kanil sem inniheldur lítið sem ekkert. Rannsóknir í Þýskalandi hafa sýnt að þeir sem borða mikið af kanil fá hlutfallslega mikið magn af kúmarín í líkamann úr mat. Ennfremur sýna þær að magn kúmaríns í úrtaki af bakarísvörum og morgunkorni sem innihalda kanil reyndist oft vel yfir gildum sem leyfileg eru í ýmsum matvælum skv. hámarksgildum kúmaríns í reglugerð um bragðefni (5-50 mg/kg, allt eftir matvælategund). Niðurstöðurnar sýna að matvælaiðnaðurinn notar fyrst og fremst cassia kanil, sem inniheldur mikið kúmarín. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur metið þolanlega daglega inntöku (TDI, tolerable daily intake) fyrir kúmarín 0,1 mg/kg líkamsþyngdar á dag.  Þýsku rannsóknirnar sýna að í verstu tilfellum verði börn sem borða mikið af kanil útsett fyrir meira af kúmarín en þolmörk (TDI) Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) segja til um.

Matvælastofnun telur því fulla ástæðu til að benda neytendum, einkum aðstandendum barna, á að nota kanil í hófi, jafnt í bakstri sem og út í hrísgrjóna- og hafragrautinn. Jafnframt brýnir Matvælastofnun fyrir matvælaframleiðendum sem selja kanil og kanilvörur að nota ekki kanil sem inniheldur hlutfallslega mikið af kúmaríni s.s. ýmsar gerðir af cassia kanil.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?